fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Eyjan

Minningarorð forseta Alþingis um Birgi Ísleif Gunnarsson

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 4. nóvember 2019 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést aðfaranótt mánudagsins 28. október sl. á líknardeild Landspítalans í Kópavogi eftir langvarandi veikindi. Hann var 83 ára gamall. Varð skammt milli þeirra hjóna eftir nær 65 ára sambúð, en kona hans, Sonja Backman, lést fyrr í mánuðinum.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, flutti minningarorð um Birgi Ísleif í dag sem hér fara eftir:

„Birgir Ísleifur Gunnarsson var fæddur í Reykjavík 19. júlí 1936. Foreldrar hans voru Jórunn Ísleifsdóttir húsmóðir og Gunnar Espólín Benediktsson hæstaréttarlögmaður. Birgir lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík 1955 og lagaprófi frá Háskóla Íslands 1961, varð héraðsdómslögmaður ári síðar og hæstaréttarlögmaður 1967.

Það var snemma ljóst hvert hugur Birgis Ísleifs Gunnarssonar stefndi og hvar hann myndi skipa sér í flokk. Eftir fyrsta ár í háskóla varð hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, síðar formaður stúdentaráðs og loks fulltrúi stúdenta í háskólaráði. Hann var formaður Heimdallar 1959–1962 og í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna 1961–1969, formaður þess 1967–1969. Þá var Birgir framkvæmdastjóri Sambands ungra Sjálfstæðismanna 1961–1963.

Í sveitarstjórnarkosningunum 1962 var Birgir kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur, aðeins 25 ára gamall, og öllum ljóst að þar fór fulltrúi ungs fólks sem mikils mátti vænta af. Birgir rak meðfram störfum í borgarstjórn eigin lögmannsstofu en árið 1972 varð hann borgarstjóri í Reykjavík og var vinsæll og vel látinn meðal borgarbúa, enda gjörkunnugur málum borgarinnar. Hann hvarf úr því starfi 1978 eftir mikinn kosningasigur vinstri flokkanna sem þá mynduðu nýjan meiri hluta.

Birgir Ísleifur söðlaði þá um og var kosinn alþingismaður Reykvíkinga í desember 1979. Hér sat hann röskan áratug, fram í ársbyrjun 1991, er hann var skipaður seðlabankastjóri. Þegar Þorsteinn Pálsson myndaði ríkisstjórn sína sumarið 1987 varð Birgir Ísleifur menntamálaráðherra en sú stjórn fór frá rúmu ári síðar. Bankastjórastöðunni gegndi Birgir til sjötugsaldurs.

Fljótlega hlóðust á Birgi Ísleif margvísleg störf í stjórnum og nefndum, ýmist á vegum Sjálfstæðisflokksins, Reykjavíkurborgar eða frjálsra félagasamtaka. Hann var í forystu samtaka skógræktarmanna og var forseti Rótarý-hreyfingarinnar um hríð. Hér á Alþingi var hann formaður atvinnumálanefndar nokkur þing og virkur í alþjóðastarfi þingsins, bæði hjá þingmannasamtökum Atlantshafsbandalagsins og í Vestnorræna þingmannaráðinu. Hann sat á 12 þingum alls.

Nær alla starfsævi sína, frá ungum aldri, tók Birgir Ísleifur Gunnarsson mikinn þátt í stjórnmálastarfi og var hann jafnan valinn til forystustarfa meðal stúdenta, ungra Sjálfstæðismanna, í borgarstjórn og á Alþingi. Í Seðlabankanum átti hann einnig farsælan feril. Hann var afar háttvís í framkomu, hófsamur og vinsamlegur í samskiptum, fremur hlédrægur að dagfari en batt vináttubönd, eigi síður við pólitíska andstæðinga en samherja, sáttfús og réttsýnn við öll störf. Í málflutningi var hann hófsamur og málefnalegur.

Í Birgi Ísleifi var listamannstaug, hann var ágætur djasspíanisti og mikill tónlistarunnandi, gleðimaður í vinahópi. Genginn er dagfarsprúður og góður drengur.

Ég bið þingheim að minnast Birgis Ísleifs Gunnarssonar með því að rísa úr sætum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

Kyle Walker í Burnley
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bryndís sagði málþóf séríslenskt fyrirbæri og taldi rétt að beita 71. grein – Undirbýr nú 32. ræðu sína um veiðigjaldið

Bryndís sagði málþóf séríslenskt fyrirbæri og taldi rétt að beita 71. grein – Undirbýr nú 32. ræðu sína um veiðigjaldið
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“ 

Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“ 
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Uppáhalds afsökunin okkar

Nína Richter skrifar: Uppáhalds afsökunin okkar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun