fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
Eyjan

Helgi segir frá fréttafölsun Halls á RÚV: Var með bunka af vélritunarpappír

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 28. febrúar 2019 18:15

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin Lífið í lit, eftir Björn Jón Bragason, fjallar um endurminningar Helga Magnússonar, athafnamanns sem hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi á liðnum árum. Þar er meðal annars fjallað um Hafskipsmálið alræmda, en Helgi var löggiltur endurskoðandi félagsins og því mitt í hringiðunni.

Í bókinni er rifjuð upp skondin saga af Halli Hallssyni, fréttamanni RÚV á þeim tíma, sem fjallaði mikið um málið.

Í lok desember 1985 hafði Alþingi samþykkt skipan rannsóknarnefndar til að rannsaka viðskipti Útvegsbankans og Hafskips, en Helgi Magnússon hafði verið löggiltur endurskoðandi félagsins. Mikil eftirvænting var eftir skýrslunni, en rétt um það leyti sem bók Helga um Hafskipsmálið kom út um mánaðamótin október/nóvember 1986 var skýrslunni lekið til Ragnars Kjartanssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Hafskips.

Helgi segir:

„Hann fékk aðeins að halda eintakinu eina kvöldstund og eftir að hafa fengið það í hendur hringdi hann til mín og bað mig að koma með hraði heim til sín í Vogaland 11. Hann fékk mér skýrsluna í hendur og ég ljósritaði undireins tvö eintök, eitt fyrir mig og annað fyrir hann. Við sátum báðir sveittir við lestur skýrslunnar fram eftir nóttu og vorum ánægðir með niðurstöðuna þegar við bárum saman bækur okkar að morgni. Allir þekktum við Ingva Hrafn Jónsson, þáverandi fréttastjóra Ríkissjónvarpsins, og vissum að honum leið illa vegna fyrri umfjöllunar sjónvarpsins um okkar mál, þegar sakborningar voru ítrekað sýndir á fréttamyndum leiddir inn og út úr húsakynnum Sakadóms. Ingvi Hrafn hafði margsinnis afsakað þetta og borið því við að hann hefði verið erlendis.

Fréttamaðurinn, Hallur Hallsson, var sjálfur miður sín vegna þessa, enda margir kunningjar hans hættir að heilsa honum út af þessari óvægnu umfjöllun. Ingvi Hrafn hafði sagt við mig nokkru áður: „Þú verður að gera það fyrir mig að taka hann Hall í sátt. Ég vil að við gerum gott úr þessu. Þið eigið inni greiða hjá okkur.“ Ég hafði það bakvið eyrað. Kominn með skýrsluna í hendur fannst mér orðið tímabært „að taka út greiðann“ ef svo má að orði komast. Ég greindi Ingva Hrafni frá því í trúnaði að ég hefði skýrsluna undir höndum, en ekki kæmi til greina að afhenda hana fréttastofunni í heild sinni. Úr varð að við Hallur hittumst heima hjá mér.

Ég las fyrir hann úr skýrslunni við borðstofuborðið og við flettum henni saman. Hallur skrifaði niður eftir mér setningar úr henni til birtingar í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Þegar við stóðum upp frá borðum spurði Hallur mig hvort ég væri til í að gefa sér fremstu síðu skýrslunnar. Ég féllst á það. Í fréttum Ríkissjónvarpsins að kvöldi 11. nóvember 1986 flutti Hallur orðréttar tilvitnanir úr skýrslunni sem voru látnar renna yfir sjónvarpsskjáinn. Síðan veifaði hann „skýrslunni“ framan í áhorfendur. Þá hafði hann límt ljósrit af kápunni á bunka af vélritunarpappír og þóttist hafa skýrsluna undir höndum Hallur mælti ábúðarmikill á svip: „Hér er hún – skýrslan – sem allir hafa beðið eftir.““

Hallur með „skýrsluna“ frægu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Dýralæknar, starfseiður þeirra og blóðmerahaldið

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Dýralæknar, starfseiður þeirra og blóðmerahaldið
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ásmundur sendir flokksfélögum sínum pillu – „Forystan hér í bæ kom mér út af listanum“

Ásmundur sendir flokksfélögum sínum pillu – „Forystan hér í bæ kom mér út af listanum“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hanna Katrín Friðriksson: Landbúnaður getur blómstrað – má ekki víkja um of frá lögmálum markaðarins

Hanna Katrín Friðriksson: Landbúnaður getur blómstrað – má ekki víkja um of frá lögmálum markaðarins
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Margir vilja Guðlaug Þór í forystu í borginni – út með alla núverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Orðið á götunni: Margir vilja Guðlaug Þór í forystu í borginni – út með alla núverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hanna Katrín: Veiðigjöld eiga ekki að byggja á innanhússverði hjá fiskvinnslu og veiðum sem eru undir sama hatti

Hanna Katrín: Veiðigjöld eiga ekki að byggja á innanhússverði hjá fiskvinnslu og veiðum sem eru undir sama hatti
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn