Innan Sjálfstæðisflokksins er blásið til deilna um Evrópusambandið og þá helst orkupakkann svokallaðan sem verður að öllu óbreyttu hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það var haldinn fundur í Valhöll um málið í vikunni, nokkuð hár aldur fundarmanna vakti raunar athygli, en höfð voru uppi stór orð um að forysta Sjálfstæðisflokksins væri að bregðast í þessu máli. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sat á fremsta bekk og hefur verið mjög herskár í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins vegna þessa. Þar birtist líka langvarandi óþol Davíðs gagnvart Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins.
Í vikunni var skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson nefnd til að fjalla um EES-samninginn. Það er að mörgu leyti skiljanlegt. Varla neinn stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur lagt það til af neinni alvöru að samningnum verði sagt upp. Hann er ansi mikilvægur fyrir þjóðarhag. En hann er orðinn ansi fyrirferðarmikill í íslensku samfélagi og sumt kannski illa samræmanlegt stjórnarskránni íslensku sem gerir ekki ráð fyrir neinu afsali fullveldis. Vegna deilna um ESB hefur ekki mátt setja neitt slíkt inn í stjórnarskrána sem er í raun tímaskekkja.
Formaður nefndarinnar er Björn Bjarnason sem lengi hefur verið helsti hugsuður Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum. En Björn telur ekki að vá sé fyrir dyrum varðandi orkupakkann og hann er heldur ekki andsnúinn EES-samningnum. Björn skrifar á heimasíðu sína í gær og á þar orðastað við Pál Vilhjálmsson sem hvetur til þess að Ísland segi sig úr EES:
Eins og allir sjá kýs Páll að snúa út úr orðum mínum. Ég segi hvergi að EES-samningurinn sé óhjákvæmilegur heldur tel ég hann bestu leiðina „til óhjákvæmilegs samstarfs okkar við ESB“. Hvergi hefur Páll, svo ég viti, sagt að Íslendingar skuli ekki að eiga neitt samstarf við ESB. Þótt menn hafi horn í síðu sambandsins er ólíklegt að nokkrum hér á landi komi til hugar að unnt sé að sniðganga það með öllu.
Þessi útúrsnúningur Páls er því miður ekki einsdæmi í umræðum um íslensk utanríkismál eða samstarfið við ESB sérstaklega. Vegna 3. orkupakka ESB er sú kenning meðal annars á sveimi að árið 2027 kunni íslensk stjórnvöld að standa frammi fyrir því að einhver erlendur aðili hafi lagt sæstreng milli Íslands og ESB-lands og Brusselmenn heimti að honum verði stungið í samband hér á landi. Til að forðast þessi ósköp verðum við að standa utan pakkans.
Við þurfum ekki að fara langt yfir skammt til að leita að dæmum um falsfréttir eða upplýsingafalsanir!
Þá skal því haldið til haga í þessari sömu andrá að ég hef aldrei sagt að EES-samningurinn í núverandi mynd sé óhagganlegur og raunar talið Bretum fyrir bestu að gerast aðilar að honum samhliða uppfærslu hans. Eins og pólitíska öngþveitið vegna Brexit ber með sér hafa Bretar ekki haft vit á að fara að þessum ráðum.