Fréttablaðið greinir frá því í dag að lögreglulaust hafi verið í Borgarnesi þegar umtalsverðu magni af tölvubúnaði var stolið úr gagnaveri þar í bæ í desember síðastliðnum. Blaðið segist hafa heimildir fyrir því að þjófarnir hafi beðið færis, vitandi hvenær vaktinni lyki hjá lögreglumönnum við störf í bænum og aðeins einn lögreglumaður yrði á bakvakt um nóttina, sofandi í rúmi sínu.
Fréttablaðið segir aðeins um hálftíma hafa liðið frá því vakt lögreglumanna lauk umrædda nótt og þar til þjófarnir létu til skarar skríða og er það sagt varla geta verið tilviljun.
Haft er eftir Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Vesturlandi, að þetta sé afleiðing þess að fjárveitingar til lögreglu séu skornar við nögl:
„Þegar lögreglumenn eru á bakvakt eru þeir bara heima í rúmi og svara ekki nema þeir séu ræstir út. Þetta er það sem við myndum vilja sjá breytingu á en það er ekki fjármagn í þetta.“
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sagði við Eyjuna á dögunum að lögreglan væri of fáliðuð. Fækkunin nemi 17 prósentum, í samanburði áranna 2007 og 2016 og bifreiðum hafi einnig fækkað eitthvað.
„Árið 2007 vori faglærðir lögreglumenn 712. Allt í allt voru þeir 827. Árið 2016 voru faglærðir alls 646, en allt í allt 706. Á höfuðborgarsvæðinu störfuðu 290 lögreglumenn. Þegar þetta er haft til hliðsjónar því að hér hefur orðið nokkur fólksfjölgun á þessum árum, ásamt stóraukningu í ferðamannastraumi, liggur fyrir að álagið á lögreglumenn er ansi mikið, líkt og segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi frá því í fyrra,“
segir Snorri. Í skýrslunni kemur fram að draga hafi þurft úr starfsemi lögreglu á öllum sviðum:
„Á árum áður ríkti einsleitni í fámennu samfélagi Íslendinga og einangrun landsins veitti visst skjól gagnvart alþjóðlegri skipulagðri brotastarfsemi en slíku er ekki til að dreifa í dag. Lögreglunni hefur ekki verið gert kleift að fylgja eftir þróun og breytingum samfélagsins. Frumkvæðislöggæsla krefst mannafla og fjármuna til lengri tíma. Í stað þess að lögreglumönnum væri fjölgað til þess að efla frumkvæðislöggæslu á sviði afbrotavarna fækkaði lögreglumönnum stórlega frá árinu 2007 og draga þurfti úr starfsemi lögreglu á öllum sviðum. Þessi skortur á frumkvæðislöggæslu gerir það að verkum að lögreglan fylgir ekki nægilega vel samfélagsþróun og býr þannig ekki yfir nauðsynlegri getu til að takast á við breytingar sem fylgja t.a.m. alþjóðavæðingu og skipulagðri glæpastarfsemi þvert yfir landamæri.“
Þar kemur einnig fram að: