Mosfellsbær auglýsti í gær kynningu á deiliskipulagslýsingu fyrir Vesturlandsveg og veghelgunarsvæði frá gatnamótum við Skarhólabraut að gatnamótum við Reykjaveg, alls 2.5 kílómetra leið.
Fyrirhuguð er tvöföldun Vesturlandsvegar frá Miklubraut í Reykjavík að gatnamótum Þingvallavegar í Mosfellsbæ, en líkt og þeir sem keyra um Vesturlandsveginn til austurs á háannatíma vita, myndast flöskuháls við eitt hringtorgið í Mosfellsbæ, sem hægir mjög á umferð, þar sem vegurinn breytist úr 2+2 í 2+1 og aftur í 2+2.
Tvöföldun vegarins er sögð auka umferðaröryggi og stuðla að samfellu í vegakerfinu samkvæmt lýsingu, sem og leysa þann flöskuháls sem flestir kannast við.
Lengd svæðisins er tæpir 2,5 km. Veghelgunarsvæði er 30 m frá miðlínu götu. Á gatnamótum við Skarhólabraut og við Reykjaveg er skipulagssvæðið afmarkað þannig að það taki til svæðis sem myndi þurfa fyrir mislæg gatnamót í samræmi við aðalskipulag. Innan skipulagsmarka eru af- og aðreinar mislægra gatnamóta Vesturlandsvegar, til beggja átta. Ekki eru fyrirhuguð mislæg gatnamót á svæðinu í nánustu framtíð, en mikilvægt er að horfa til framtíðar og takmarka ekki möguleika til framtíðaruppbyggingar á vegakerfinu.
Í þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 kemur fram að gert er ráð fyrir 510 m.kr. fjárveitingu fyrir framkvæmdir við Vesturlandsveg milli Skarhólabrautar og Langatanga, fyrir árið 2018. Ekki er fjallað um Vesturlandsveg milli Langatanga og Reykjavegar í samgönguáætlun.