Aðsendar greinar í Morgunblaðinu eru margvíslegar og það verður að segja eins og er að núorðið hefur Fréttablaðið vinninginn þegar greinar utan úr bæ eru annars vegar. Margir virðast vera ansi hikandi að senda greinar í Morgunblaðið, ólíkt því sem var á tíma Matthíasar og Styrmis þegar greinaskrif í Morgunblaðið blómstruðu.
Í dag birtist þó ansi góð grein í Mogganum. Hún kemur reyndar úr dálítið óvæntri átt, því höfundur hennar er Nína Khrúsjeva. Hún er háskólaprófessor í New York, stjórnmálafræðingur. Nikita Khrjúsov Sovétleiðtogi var langafi hennar, en vegna fjölskylduaðstæðna gekk gamli maðurinn henni reyndar í afa stað.
Khrjúsjeva skrifar um einræðisherra og drottnunargjarna stjórnmálamenn samtímans og tilhneigingu þeirra til að hamapa samsæriskenningum. Fyrst fjallar hún um Erdogan Tyrklandsforseta sem er á góðri leið með að rústa efnahag lands síns – en trúir því statt og stöðugt að hærri vextir auki verðbólgu. Hún segir að trúin á dellukenningar minni nokkuð á Trofim Lysenkó, en hann setti fram hugmyndir um erfðafræði sem Stalín lagði trúnað á, urðu að opinberri kreddu í Sovétríkjunum, og ollu geysilegum skaða.
Svo beinir Khrjúsjeva spjótum sínum að Donald Trump, segir meðal annars að hann hafi flutt vænisýki af jaðri stjórnmálanna að miðju þeirra:
Ef til vill er þó enginn núríkjandi leiðtogi ginnkeyptari fyrir torræðum vísindum og hæpnum samsæriskenningum en Bandaríkjaforsetinn drottnunargjarni Donald Trump. Ekki má það falla í gleymskunnar dá að Trump pukraði sér inn í hringiðu bandarískra stjórnmála með því að hampa fæðingarrökum kynþáttahyggjufólks, þess efnis að þáverandi forseti, Barack Obama, hefði ekki fæðst í Bandaríkjunum og uppfyllti því ekki hæfisskilyrði embættisins.
Vitleysan hefur ekkert nema ágerst síðan Trump settist í Hvíta húsið. Fleiri en 20 færslur hans á Twitter hafa fjallað um möguleg tengsl milli bólusetninga og einhverfu. Þeim tengslum – sem runnin eru undan rifjum fáfengilegs bresks læknis og fyrrverandi Playboy-leikfélaga – hefur vísindasamfélagið hafnað.
Enn fremur afneitar Trump hvers kyns tengslum milli mannlegra gjörða og loftslagsbreytinga, enn á ný í trássi við ráðandi niðurstöður vísindanna. Gegn mótmælum ótal hagfræðinga fullyrðir hann að halli á vöruskiptum sé merki um efnahagslegan veikleika Bandaríkjanna. Alan Levinovitz, prófessor í trúarbragðafræðum við James Madison-háskólann, segir Trump beita hástöfum í tístum sínum á sama hátt og skottulæknar og falstrúboðar gerðu til að slá ryki í augu almennings fyrr á öldum.
Óljóst verður að telja með öllu hvort Trump þekki muninn á sviknu og ósviknu. Hann virðist sannfærður um að alríkislögreglan FBI og fjölmiðlar geri með sér samsæri um að fella hann af stalli. Trump hefur flutt það sem sagnfræðingurinn Richard Hofstadter lýsti sem „vænisýkisstíl“ af jaðri bandarískra stjórnmála inn að miðpunkti þeirra. Ef til vill eru það sameiginleg áhrif þessarar vænisýki sem fá Trump til að fikra sig nær Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem statt og stöðugt hefur látið í veðri vaka að uppi sé alþjóðlegt samsæri um að svipta Rússland þeirri stórveldisstöðu sem það verðskuldi.