Nú er rétt um það bil eitt ár þar til gengið verður til sveitarstjórnarkosninga. Það má reikna með að í Svf Árborg komi fram fjöldinn allur af framboðum, og því ekki ljóst hvaða áherslur við eigum í vændum. Umræðan um frekari sameiningar sveitarfélaga hefur verið hávær að undanförnu, og vinna þegar komin af stað um hugsanlegar sameiningar sveitarfélaga í Árnessýslu og Rangárvallarsýslu.
Það er mín skoðun að næstu kosningar verði þær síðustu sem fólk gengur að kjörborðinu samkvæmt þeirri sveitarfélagaskiptingu sem við þekkjum í dag á Suðurlandi. Búast má við því að strax á haustdögum fari stjórnmálaflokkarnir og frambjóðendur, að keppast við að kynna sig til þess að ná athygli kjósenda. Samvinna minnihlutaflokkana í bæjarstjórn Árborgar undanfarin tvö kjörtímabil hefur verið, afar góð og farsæl og því ekki fráleitt að mínum dómi að huga að sameiginlegu framboði félagshyggjuflokkanna fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.
Í mínum huga þarf að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að Sjálfstæðisflokkurinn, fái hreinan meirihluta þriðja kjörtímabilið í röð í Svf Árborg. Til þess að hægt verði að bjóða fram sameiginlega lista félagshyggjuflokkanna og óháðra almennra íbúa þurfa allir að koma að borðinu með heilindi og hreinskilni í farteskinu. Við eigum ekki að vera feimin við að hugsa upphátt og setja fram nýjar hugmyndir, sem hugsanlega gætu orðið að einhverju stóru.
Nú er ekki svo að margt hefur gott verið gert á valdatíma núverandi meirihluta, en allt hefur sinn tíma og nú er þörf á nýjum áherslum. Ég hvet alla sem áhuga hafa á bæjarmálum og sínu nærumhverfi, að leiða hugann að því hvort sameiginlegt framboð félagshyggjuflokkanna og annarra óháðra íbúa eigi ekki hljómgrunn í kosningunum næsta vor.
Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg
Birtis fyrst í Suðra. Smelltu hér til að lesa blaðið í heild sinni.