„Ég botna ekkert í þessari hagstjórn. Stýrivöxtum er haldið í 5% af ótta við þenslu þrátt fyrir að gríðarlegur vaxtamunur milli Íslands og annarra landa sé farinn að valda innstreymi fjármagns og eignaverðsbólu. En í stað þess að lækka vextina boða menn lækkun virðisaukaskatts,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Framsóknarflokksins á Fésbókarsíðu sinni.
Segir Sigmundur Davíð að vissulega væri æskilegt að lækka efra þrep virðisaukaskatts þegar aðstæður leyfa en hann telur að sá tími sé ekki kominn. „Hvernig stenst það að fara út í slíkt á sama tíma og menn virðast logandi hræddir við að fólk og fyrirtæki fari að eyða meiri peningum ef vaxtabyrðin lækkar.“
Telur Sigmundur að með þessum aðgerðum sé verið að viðhalda eignabólunni:
Sem sagt í stað þess að lækka vexti, bæta kjör þeirra sem skulda og gera það aftur raunhæft að byggja og kaupa íbúðarhúsnæði á að lækka skatta og viðhalda eignabólunni. Það versta er að Seðlabankinn er svo vís til að segja að hann geti ekki lækkað vexti því hann telji sig þurfa að vega upp á móti þensluáhrifum skattalækkana.