Ragnar Þór Ingólfsson nýkjörinn formaður VR er ekki ánægður með störf lífeyrissjóðanna, einkum í tengsl við málefni HB Granda. Hann mætti í viðtal í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í gær og ræddi fregnir sem bárust af Akranesi í vikunni um lokun botnfisksvinnslu HB Granda á Skaganum. Ef þær áætlanir HB Granda ná fram að ganga er ljóst að 93 manns missa vinnuna og það myndi hafa alvarleg áhrif á atvinnuástand bæjarins sem og fjölskyldur þeirra.
Ragnar Þór skrifaði af þessu tilefni grein sem birtist í Kvennablaðinu sem bar titilinn ,,Með lífin í lúkunum“ þar sem hann segir það liggja í augum uppi að breytingar verði að gera á núverandi kvótakerfi og úthlutun hans. Hann segir samfélagið allt eiga fullan rétt á því að gera þá kröfu til fyrirtækja sem fá aðgang að sameiginlegri auðlind okkar allra og séu að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna að þau sýni samfélagslega ábyrgð.
Ragnar segir það skjóta skökku við að lífeyrissjóðir eigi 38,08% hlut í HB Granda og fyrirtækið gangi fram með þessum hætti gagnvart fólki sem í reynd er eigendur þess. Lífeyrissjóðirnir eigi því rétt í krafti eignar sinnar í fyrirtækinu að hafa ríkari áhrif á það hvernig fyrirtækið er rekið. „Við hljótum að þurfa að spyrja okkur hvort við þurfum að fara að endurskoða hlutverk lífeyrissjóða með einhverjum hætti því að það er eins og við séum orðnir hálfgerðir þrælar þessa kerfis.“
Ragnar bendir á að lífeyrissjóðirnir séu stærstu eigendur fasteignalána almennings og orðnir umsvifamiklir á leigumarkaði, stærstu eigendur smásöluverslunar og þjónustufyrirtækja.
Þeir hafa þar með hag af háum vöxtum, lágum launum, hárri álagningu og hárri leigu,
segir Ragnar Þór og vill að þetta kerfi verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Samkvæmt samantekt hans á launum æðstu stjórnenda lífeyrissjóðanna sem eiga hlut í HB Granda voru þeir með meira en hálfan milljarð í laun á síðasta ári. HB Grandi hafi verið rekinn með hagnaði síðustu fimm ár samfleytt, samtals 23,6 milljarða og næstum 12 milljarðar hafa verið greiddir í arð.
Þarna eru einhverjir einstaklingar sem eru að stýra þessu fyrirtæki að horfa á einhverjar tölur á blaði þegar við erum með framtíð 93 eða tæplega 100 einstaklinga og fjölskyldna þeirra í húfi. Gróðafíknin og gróða krafa lífeyrissjóða og þessara fyrirtækja er orðin með þvílíkum eindæmum að við hljótum að spyrja okkur hvað getum við gert og beitt okkur gegn þessari þróun.
Ragnar Þór segir auk þess tilfærslur á kvóta hafi lagt allt of mörg sjávarþorp á hliðina og það sé nauðsynlegt að horfa til áhrifa á líf og framtíð einstaklinga af svona aðgerðum sem gerðar eru til að auka gróðann.