Finnur Ingólfsson fyrrverandi ráðherra og forstjóri VÍS, hafnar því alfarið að vera eigandi Dekhill Advisors. Um er að ræða dularfullt aflandsfélag sem kemur fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að sölu Búnaðarbankans. Í fléttunni enduðu 46,5 milljón Bandaríkjadalir, um 2,9 milljarðar þá, 4 milljarðar króna í dag, í félaginu Dekhill Advisors en rannsóknarnefndin gat ekki rakið féið lengra.
Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins vitnaði í frétt RÚV á Fésbókarsíðu sinni í gær þar sem einu upplýsingarnar um Dekhill Advisors er skráning um stofnsetningu á Bresku Jómfrúreyjum 25. júlí 2005 með númerinu 668854:
Hvaða kynþokkafulli maður á afmæli 8. ágúst og er fæddur 1954?,
spurði Vilhjálmur en það er einmitt afmælisdagur Finns Ingólfssonar. Í kjölfar fréttaflutnings Vísis af færslu Vilhjálms sendi Finnur frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
Í tilefni af Facebókarfærslu Vilhjálms Bjarnasonar alþingismanns, og fréttar sem birt er vegna hennar á www.visir.is vil ég taka eftirfarandi fram: Hvorki ég eða nokkur sem mér tengist er eigandi að félaginu Dekhill Advisors líkt og Vilhjálmur dylgjar að og slegið er upp í frétt á www.visir.is.