Fjölmargir eldri borgarar telja að sá þjóðfélagshópur eigi nú inni fimm milljarða króna í ógreiddum ellilífeyri frá ríkinu fyrir janúar og febrúar síðastliðinn.
Nú verður látið reyna á þetta fyrir dómi.
Þann 1. janúar 2017 tóku gildi breytingar á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007.
Breytingarnar felldu úr gildi heimildina til að skerða greiðslur Tryggingastofnunar til eldri borgara vegna áunninna réttinda þeirra úr lífeyrissjóði. Nemur þessi skerðing 2,5 milljörðum króna á mánuði.
Tryggingastofnun ákvað hins vegar að hunsa gildandi lög með því að greiða ekki samkvæmt þeim, heldur lét Velferðarráðuneytið vita af málinu í lok janúar. Þá virðist hafa farið í gang mikill feluleikur hjá stjórnvöldum til að breiða yfir það sem þau töldu mistök. Síðan samþykkti Alþingi afturvirkar breytingar á almannatryggingalögunum þar sem alls fimm milljarða réttindi ellilífeyrisþega fyrir mánuðina janúar og febrúar voru afnumin. Komið hefur fram að það var Velferðaráðuneytið sem samdi frumvarpið sem sviptir eldri borgara áunnum réttindum þeirra afturvirkt. Fréttatíminn hefur skrifað greinar um þetta mál nú í marsmánuði.
Þannig varð það að þessi réttindi sem breytingar á lögunum veittu eldri borgurum voru aldrei greiddar út á meðan verið var að breyta lögunum afturvirkt og freista þess með því móti, að greiða þeim aldrei þennan áunna rétt.
Svona gerast bara ekki kaupin á eyrinni. Ef löggjafinn veitir okkur borgurunum ívilnandi réttindi í settum lögum frá Alþingi Íslendinga þá verða þau réttindi ekki skert afturvirkt. Eldri borgarar áttu þessa peninga samkvæmt lögum og það er sama hver vilji löggjafans var. Spurningin er ekki sú hvernig þeir vildu að lögin væru heldur staðreyndin um það hvernig lögin í rauninni eru á því tímabili sem um er rætt. Lög eru lög,
segir Inga Sæland formaður Flokks fólksins sem sjálf er með BA-gráðu í lögum frá Háskóla Íslands frá því í fyrra. Hún segir að fjöldi ellilífeyrisþega hafi sett sig í samband við sig. Fólkið vilji stofna sjóð og fara saman í hópmálsókn gegn ríkinu til að sækja þá fimm milljarða sem það telur að ríkið skuldi þeim.
Flokkur fólksins hefur fengið Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann og fv. Hæstaréttardómara, til að taka málið að sér.
Í málinu mun verða látið reyna á lögmæti þeirra breytinga sem gerðar voru á almannatryggingalögum númer 100/2007 og tóku gildi þann 1. janúar síðastliðinn,
segir Inga Sæland formaður Flokks fólksins.
Á dögunum var þáttur Eyjunnar á ÍNN helgaður kjaramálum eldri borgara. Þar sagði Wilhelm Wessman fyrrverandi hótelstjóri og núverandi baráttumaður fyrir bættum kjörum ellilífeyrisþega m. a. að ef ekki vildi betur þá yrði þessi þjóðfélagshópur að fara í málaferli gegn ríkinu. Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Wilhelm.
Minnt skal á að klukkan 21:00 í kvöld verður nýr Eyjuþáttur frumsýndur á ÍNN.
https://vimeo.com/208794843