Ekkert bendir til að Halldór Ásgrímsson heitinn og Davíð Oddsson hafi vitað af fléttu Ólafs Ólafssonar við kaupin á Búnaðarbankanum. Því hefur lengi verið haldið fram að Davíð og Halldór, sem voru í forystu ríkisstjórnarinnar við sölu bankanna í byrjun aldarinnar hafi verið „allsráðandi“ þegar ákveðið var hverjir fengu að kaupa hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Hefur þetta meðal annars komið fram í máli Steingríms Ara Arasonar sem sagði sig úr einkavæðinganefnd á sínum tíma, sagði hann það hafa verið pólitíska ákvörðun hvaða aðilar fengu að kaupa Búnaðarbankann og Landsbankann.
Sjá frétt Eyjunnar frá 2010: Steingrímur Ari: Davíð og Halldór réðu öllu
Er það afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar. Blaðamaður Eyjunnar spurði Kjartan Bjarna Björgvinsson formann rannsóknarnefndarinnar og Finn Vilhjálmsson hvort rannsóknarnefndin hafi fundið eitthvað sem benti til þess að Davíð og Halldór hafi vitað af blekkingum og fléttu Ólafs Ólafssonar:
Nei það er ekkert í gögnum nefndarinnar sem benda til þess.