„Kerfið er í stríði við fátækt fólk og veikt. Það er skömm okkar tíma. Við sváfum öll á vaktinni á meðan Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lögðu verkó niður og við ypptum öxlum yfir fréttum af bágum kjörum fólks á örorkubótum. Við sváfum líka þegar Vinstri-Grænir og Samfylking fóru í krónu á móti krónu skerðingu á kjörum öryrkja. Nú erum við að horfa á Landspítalann mygla í fréttum án þess að kjósa annað en flokka sem vilja okkur almenningi ekki vel.“
Þetta segir Mikael Torfason á Facebook-síðu sinni og deilir myndskeiði úr Kastljósi en þar kom fram að fátt bendi til annars en að Ríkisendurskoðun hafi stórlega ofmetið möguleg bótasvik skjólstæðinga Tryggingastofnunar í skýrslu árið 2013. Ríkisendurskoðun taldi að bótasvik gætu numið hátt í fjórum milljörðum. Í Kastljósi kemur fram að þingmenn hafi í kjölfar rangra upplýsinga hert eftirlit með lífeyrisþegum og hluti þess hafi verið að nýta persónuupplýsingar fólks. Ríkisendurskoðun hefur beðist afsökunar á sumu sem fram kemur í skýrslunni sem stuðst var við en stofnunin hafði nýtt sér danska skýrslu sem var ekki byggð á rannsóknum.
Formaður öryrkjabandalagsins Ellen Calmon segir að þetta hafi haft í för með sér að hinar röngu upplýsingar hafi skekkt umræðuna og öryrkjar orðið fyrir fordómum ráðamanna og um leið bitnað á hagsmunabaráttu lífeyrisþega.
„Við heyrðum þingmenn fara með ýmis ummæli sem voru vægast sagt ósmekkleg og þessi orðræða og þessi niðrandi orðræða um örorkulífeyrisþega að þeir séu bótasvikarar og afætur á kerfinu og auðvitað hefur þetta áhrif á hagsmunabaráttu okkur ef að við þurfum að vera í stöðugri varnarbaráttu við þingmenn og ráðamenn þjóðarinnar.“
Búið að ýta fátækum út í horn
Mikael Torfason gerir sér mat úr þættinum en þættir hans um fátækt hafa vakið mikla athygli. Hann segir Íslendinga hafa gefist upp á að berjast fyrir réttindum sínum og sagt skilið við hefðbundna stéttabaráttu.
„Af því að við erum öll á leiðinni á MBA námskeið eða Dale Carnagie eða eitthvað sem mun gera okkur nógu smart til að fá heldur vinnu hjá Samtökum atvinnulífsins en að berjast fyrir kjörum okkar og þeirra sem minna mega sín.“
Mikael bætir við að búið sé að ýta hinum fátæku út í horn. Í stað þess að fá hjálp er þeim kennt um og sagt að bjarga sér og gyrða sig í brók.
„Úff. Kannski erum við öll sek um einhver svona viðhorf, hvort sem við erum fátæk eða ekki. Ég hef eytt miklum tíma núna í að kynnast kjörum þeirra sem verst hafa það,“ segir Mikael og bætir við:
Ég kynntist til dæmis fólki sem er beinlínis haldið veiku af þessu kerfi okkar. Ein vinkona mín fór á spítala fyrir jól. Af því að hún hefur ekki efni á sjúkraþjálfun sem þó er niðurgreidd. Hún verður fyrst að borða og sjá um sínar grunnþarfir með hjálp Netgíró og Smálána sem okra á okkar veikasta fólki.“