Tinna Brynjólfsdóttir er tveggja barna móðir og á eiginmann sem situr í fangelsinu á Akureyri. Hún hefur lengi barist fyrir því að mál manns hennar verði tekið upp að nýju en hefur allstaðar komið að lokuðum dyrum í stjórnkerfinu. Að hennar sögn var síðasta vonin að fá Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands til að aðstoða sig í baráttunni. Í þeim tilgangi skrifaði hún forsetanum bréf þar sem hún fór þess að leit við hann að fá að ganga á fund hans vegna alvarlegra mannréttindabrota og spillingu af hálfu hins opinbera eins og hún orðar það. Hún skrifaði í gær stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún segir frá samskiptum sínum við forsetann.
Guðni Th. Jóhannesson hefur tekið á móti mörgum gestum síðan hann tók við embætti forseta þann fyrsta ágúst á síðasta ári. Síðastliðinn mánudag hitti Guðni Dagnýju Magnúsdóttur á fundi eftir að hún hafði sent honum skilaboð á Facebook. Samkvæmt stöðuuppfærslu Dagnýjar á Facebook ræddu þau lífið og tilveruna á stuttum fundi. Tinna vonaðist eftir því að fá sömu viðbrögð við bón sinni um fund en forsetinn varð ekki við þeirri beiðni.
Skilaboðin sem Tinna sendi hljóðuðu svo:
Sæll Guðni
Er einhver möguleiki að þú eigir lausar mínútur á næstunni til að spjalla við mig um málefni sem brennur mér á hjarta? Þetta snýst um alvarleg mannréttindabrot og spillingu af hálfu hins opinbera. Ég er löngu orðin ráðþrota og því leita ég til þín.
Svarið sem henni barst var svohljóðandi:
Sæl Tinna,
þakka þér fyrir skeytið. Í mínu embætti er mér ekki heimilt að hlutast til um málefni einstaklinga sem telja á sér brotið í stjórnkerfinu. Ég get bent á það sem betur má fara en þá verð ég að tala á almennum nótum, ekki með því að skipta mér af einstökum málum. Miðað við beiðni þína sé ég þess vegna ekki að fundur myndi verða skynsamlegur eða skila miklu.
Þetta svar er Tinna ekki ánægð með og segir sýna innri mann forsetans. Hann hafi ekki áhuga á að heyra frásögn hennar, það sé alls ekki svo að hún vilji að hann hlutist til um nokkurn skapaðan hlut.
Þar höfum við það, þarna sjáum við úr hverju Guðni er gerður. Hann vill ekki einu sinni vita hvað ég hef að segja!
Tinna segir að margt af því sem hann hafi tekið sér fyrir hendur hingað til sé ef til vill ekki mjög skynsamlegt eða líklegt til árangurs. Forsetatíð hans virðist að hennar mati snúast frekar um að líta vel út á samfélagsmiðlum og hann ákveði hvaða verk hann taki sér fyrir hendur út frá því.
Mér finnst að forseti Íslands eigi ekki að skauta fram hjá mikilvægum málum af því þau henta honum ekki.
Mér finnst að hann eigi að vera alvöru leiðtogi sem lætur sig mannréttindi varða og þorir að beita sér fyrir betra samfélagi.
Eiginmaður Tinnu situr í fangelsinu á Akureyri
Þess má geta að eiginmaður Tinnu er Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis Banka sem dæmdur var til tveggja ára fangelsisvistar fyrir þátt sinn í BK-44 málinu svokallaða sem sérstakur saksóknari rannsakaði samkvæmt DV. Hann dvelur nú í fangelsinu á Akureyri. Málið snerist um 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 í nóvember 2007.
Í janúar síðastliðnum skrifaði Tinna grein sem birtist í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni ,,Saklausir menn í fangelsi‘‘. Í greininni fer hún yfir vinnubrögðin í réttarkerfinu í tengslum við mál eiginmanns síns og heldur því fram að dómarar við Hæstarétt Íslands hafi verið ,,bullandi vanhæfir‘‘ í málum sem tengjast hruninu og að dómurinn sé ekkert annað en brandari.
Enginn vilji sé meðal stjórnmálamanna að takast á við þetta meinta vandamál að sögn Tinnu.
Spillingin, mannvonskan og óheiðarleikinn í öllu kerfinu er miklu meiri en fólk getur ímyndað sér í sínum trylltustu draumum.
Ég trúi því ekki að Guðni Th. Forseti Íslands vilji hafa þetta svona í sínu ríki, honum er annt um mannréttindi og því hlýtur hann að gera eitthvað í málinu.
Tinna virðist ekki hafa haft erindi sem erfiði.