fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Tinna er tveggja barna móðir og segist eiga saklausan mann í fangelsi: „Spilling, mannvonska og óheiðarleiki“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 4. janúar 2017 16:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við fjölskyldan höfum fengið að kynnast þessum brandara sem Hæstiréttur Íslands er. Það trúir því enginn sem ekki fær að reyna það sjálfur hvernig vinnubrögðin eru hjá þessari æðstu stofnun Íslands,“ segir Tinna Brynjólfsdóttir í grein í Fréttablaðinu. Hún segir dómara í Hæstarétti vanhæfa til að dæma í málum tengdum Hruninu og vitnar í Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann og fyrrverandi dómara við Hæstarétt sem hefur farið mikinn í umfjöllun sinni um Hæstarétt í greinum og síðan í viðtali í Bítinu en fram hefur komið að dómarar, þar á meðal Markús Sigurbjörnsson hafi verið stórtækir í viðskiptum með hlutabréf í bönkunum fyrir hrun. Þá hefur Jón Steinar sagt lögmenn hrædda við að tjá sig opinberlega.

Segir mann sinn saklausan

Magnús Arnar Arngrímsson er þriðji frá hægri, á aftasta bekknum.
Magnús Arnar Arngrímsson er þriðji frá hægri, á aftasta bekknum.

Eiginmaður Tinnu, Magnús Arnar Arngrímsson starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis. Hann hlaut tveggja ára fangelsisdóm fyrir aðild að BK-44 málinu svokallaða. Í niðurstöðu Héraðsdóms voru þeir Birkir Kristinsson, Elmar Svavarsson og Jóhannes Baldursson dæmdir til fimm ára fangelsisvistar vegna lánveitingar til félags í eigu Birkis, BK-44. Magnús Arnar Arngrímsson hlaut fjögurra ára fangelsisdóm fyrir sinn hlut í málinu. Dómur Magnúsar var svo mildaður í Hæstarétti úr fjórum árum í tvö.

Sjá einnig: „Hann hefur talið sig ósnertanlegan“

Tinna segir mann sinn saklausan af þeim brotum sem hann var dæmdur fyrir. Segir hún Alþingismenn ekki þora að taka slaginn og haldi fram að málin komi þeim ekki við.

„Það virðist ekki vera nokkur maður hér á landi sem hefur með þessi mál að gera nema fjárfestirinn Markús sjálfur og það virðist enginn geta svo mikið sem talað við manninn því hann er á svo háum stalli að hann virðist ósnertanlegur.“

Af hverju svarar Markús ekki?

Markús var töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum eftir umfjöllun Kastljós sem fjallaði um hlutabréfaeign hans en hann átti hlut í Glitni og ýmsum öðrum sjóðum sem hlupu á tugum milljóna króna. Seldi Markús sinn hlut árið 2007 með gífurlegum hagnaði. Eftir hrun dæmdi Markús í málum sem tengdust Glitni og starfsmönnum bankans. Markús hefur sjálfur sagt að hann sé ekki vanhæfur til að dæma í málunum. DV stóð fyrir könnun þar sem spurt var hvort Markús hefði verið vanhæfur til að dæma í málum tengdum Glitni. Töldu 81,6 prósent að svo hefði verið.

Sjá einnig: „Frúin er að fá taugaáfall í þessu stutta fríi“

Tinna segir:

„Af hverju þarf Markús ekki að koma í viðtal í fjölmiðlum eins og aðrir til að svara fyrir þessi alvarlegu brot sín í starfi? Ráðamenn þjóðarinnar horfa upp á saklaust fólk fara í fangelsi án þess að aðhafast nokkuð.“

Gögn látin hverfa

Þá heldur Tinna fram að dómarnir séu órökstuddir og það sem sanni sakleysi sé látið hverfa með ósvífnum hætti eða ekki tekið til greina.

„Hátt settir dómarar koma fram opinberlega og segjast einfaldlega dæma eftir stemningu hverju sinni bullandi vanhæfir í þokkabót. Verjendur þessa saklausa fólks sem fær þunga fangelsisdóma eru gapandi yfir niðurstöðunum en hafa engin úrræði til að gera athugasemdir og telja sig ekki vera í stöðu til að gagnrýna dómana af ótta við að fyrirgera frama sínum í stéttinni.“

Í umfjöllun Eyjunnar um málið árið 2014 segir:

„Ákæran var í sex liðum og var sakfellt vegna þeirra allra. Í fyrsta lið ákærunnar voru þeir Jóhannes, Magnús Arnar og Elmar ákærðir fyrir umboðssvik fyrir að hafa í störfum sínum fyrir Glitni farið út fyrir umboð sitt til lánveitinga fyrir hönd bankans með því hafa þann 12. nóvember 2007 veitt BK-44 lán upp á 3,8 milljarða króna. Lánið, svokallað peningamarkaðslán, var veitt til hlutabréfakaupa í Glitni.

Sjá einnig: Markús vanhæfur til að dæma í málum tengdum Glitni?

Þeir Jóhannes og Elmar tóku sameiginlega ákvörðun um lánið og lét Magnús Arnar skrá lánamörk á félagið svo lánveitingin næði fram að ganga. Í niðurstöðum dómsins segir að þeir hafi allir starfað innan bankans um langa hríð, auk þess sem Jóhannes og Magnús Arnar hafi gegnt yfirmannsstöðum. Þeir hafi því átt að þekkja reglur Glitnis um útlán og markaðsáhættu og þar af leiðandi vitað að lán upp á 3,8 milljarða hafi átt að samþykkja í áhættunefnd bankans. Slíkt samþykki lá ekki fyrir. Þá hafi engar tryggingar staðið að baki lánveitingunni og hún hafi því bakað Glitni fjártjónshættu og nam tjón bankans 1,9 milljörðum króna.“

Spilling og mannvonska

Vill að Guðni grípi í taumana
Vill að Guðni grípi í taumana

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Tinna sem kvittar undir umfjöllun sína sem tveggja barna móðir og kona manns og föður sem situr saklaus í fangelsi segir það skiljanlega hugmynd að góð lausn væri að láta háttsett starfsfólk í bönkum taka skellinn af fjármálakrísu heimsins í stað þess að starfsfólk Seðlabanka, ráðherrar eða alþingismenn öxluðu ábyrgð.

„ … en að Hæstiréttur Íslands skuli spila með í því rugli alla leið er algjörlega út í hött og eitthvað sem ég átti alls ekki von á að myndi ganga eftir. Spillingin, mannvonskan og óheiðarleikinn í öllu kerfinu er miklu meiri en fólk getur ímyndað sér í sínum trylltustu draumum.“

Kveðst Tinna ekki trúa öðru en að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson bregðist við.

„ … honum er annt um mannréttindi og því hlýtur hann að gera eitthvað í málinu.“

Hér má lesa grein Tinnu í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga