Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness er glaður og hrærður yfir þeim tíðindum að Ragnar Þór Ingólfsson er orðinn formaður VR og óskar honum, í sínum nýjasta Pressupistli, innilega til hamingju með sigurinn. Segir Vilhjálmur að kjör Ragnars Þórs muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á baráttu verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni því samstarf og samvinna Verkalýðsfélags Akraness og Ragnars Þórs á þingum ASÍ hafi verið órjúfanleg:
Nægir að nefna í stórum hagsmunamálum eins og afnámi verðtryggingar, að tekið sé á okurvöxtum og auknu lýðræði í lífeyrisjóðunum, allt eru þetta mál sem Ragnar Þór hefur tekið þátt í að styðja okkur í VLFA með,
segir Vilhjálmur. Hefur hann boðið nýjum formanni VR í heimsókn til Akraness í lok vikunnar:
Kæri vinur, enn og aftur innilega til hamingju með glæsilegan árangur sem mun klárlega vera íslensku launafólki til heilla.