MMR hefur birt nýja könnun um fylgi stjórnmálaflokka sem gerð var dagana 6.-13. mars. Þar kemur fram að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er einungis með stuðning 34,5% þjóðarinnar en var 37,9% í síðustu könnun sem gerð var í febrúarmánuði. Greinilegt er að hveitibrauðsdagar ríkisstjórnarinnar eru löngu liðnir, ef þeir vörðu í einhvern tíma.
Vinstri grænir eru næst stærsti stjórnmálaflokkurinn samkvæmt könnuninni. Flokkurinn mælist með 23,5% en var 23,9% í síðustu könnun MMR.
Píratar hækka mest en þeir mældust 11,6% í síðustu könnun en eru nú með 13,2%.
Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Viðreisn og Björt framtíð missa báðir fylgi, Viðreisn þó meira. Flokkurinn mældist með 6,3% fylgi í febrúar en það er 5,5% nú. Björt framtíð var með 5,2% stuðning síðast en fær nú 5%.
Samfylkingin er ekki dauð úr öllum æðum ef marka má niðurstöður MMR. Flokkurinn var með 8% stuðning í síðustu könnun en er með 8,8% nú.
Framsókn missir fylgi milli mánaða, var með 12,2% en nú 11,4%.
Aðrir flokkar mælast með samanlagt 6,9% fylgi.
Alls tóku 921 manns þátt í könnuninni, 18 ára og eldri. Svarendur voru valdir af handahófi úr hópi álitsgjafa MMR en sá hópur er valinn úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.