Ríkisvaldið á ekki að höggva á deilur á vinnumarkaði með því að koma á fót ríkisstyrkjum til útgerðanna í formi sjómannaafsláttar segir fjármálaráðherra. „Mér finnst að fyrirtækin eigi að borga þann kostnað sem fer í þeirra starfsmenn og að það sé eitt skattkerfi fyrir alla. Þetta eru ekki þau fyrirtæki sem eru veikust á landinu heldur fyrirtæki sem hafa sýnt ágæta afkomu. Þau eru að reyna semja við sína starfsmenn og mér finnst eðlilegt að ríkið haldi sér bara utan við það. Við höfum hafnað því að setja lög á sjómenn og mér finnst eðlilegt að menn leysi deilurnar sjálfir. Menn eiga bara að vera jafnir fyrir skattinum.“
Að sögn Jens Garðars Helgasonar formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi getur hann því miður ekki tjáð sig um einstaka atriði deilunnar, meðal annars vegna fjölmiðlabanns ríkissáttasemjara. „En ég vona að við setjumst sem fyrst niður og höldum áfram að vinna að því að leysa þessa löngu og erfiðu deilu. Ég veit að hún er farin að koma mjög illa niður á sumum sveitarfélögum hér fyrir austan sem og annars staðar. Einnig eru mörg þjónustufyrirtæki á svæðinu farin að finna virkilega fyrir áhrifum verkfallsins sem er mjög miður.“ Fram kom í Austurfrétt fyrir helgi að Grétar Ólafsson ritari Sjómannasambandsins sagði austfirska sjómenn eitilharða í verkfallinu en uppúr samningafundi slitnaði þann 3. febrúar og þegar þetta er skrifað hefur enn ekki verið boðaður nýr fundur. Báðir deiluaðilar virðast horfa til ríkisins og hafa ýmsir stjórnarliðar haft hátt um leiðir til þess.
Umræðan um íhlutun á villigötum
„Sú umræða að ríkisvaldið geti hoggið á einhvern hnút í þessum kjaradeilum snýst um það að endurvekja sjómannaafsláttinn með einhverjum hætti í formi skattaafsláttar á fæðis- og dagpeninga sjómanna,“
segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra:
Þó að það séu ekki óskaplegar fjárhæðir, því það hefur verið tekið saman að hér sé um einhverjar nokkur hundruð milljónir króna að ræða sem ríkið yrði af í skatttekjum, þá held ég að þorri Íslendinga myndi vilja sjá þeim varið til uppbyggingar í heilsugæslunni eða menntakerfinu heldur en ríkisstyrkja fyrirtæki sem hafa verið að skila tugmilljarða arði á síðustu árum.
Benedikt bendir á að afstaða sjómanna sé mjög skiljanleg enda hafi kjaraskerðing þeirra orðið umtalsverð í kjölfar sterkrar stöðu krónunnar. „Auðvitað vilja menn miða við þau laun sem hafi verið í gangi síðustu ár þar sem gengi krónunnar var veikara og launin því hærri. Ég og við í Viðreisn höfum talað fyrir því að binda gengi krónunnar við ákveðinn gjaldmiðil og útgerðarfyrirtækin sækjast skiljanlega eftir því að gera sinn rekstur upp í erlendum gjaldmiðlum. Við getum til dæmis ímyndað okkur að ef gengið hefði verið fest fyrir um ári síðan þá væri þessi staða ef til vill ekki uppi á vinnumarkaði enda tekjutap sjómanna og útgerðar ekki jafn mikið og raun ber vitni,“ bætir Benedikt við en tekjutap sjómanna er gróflega áætlað um 20% frá því árið 2015 ef miðað er við hagtölur Hagstofunnar.
Starfskilyrðin betri með föstu gengi
„Það er ljóst að starfsskilyrði greinarinnar hefðu verið betri ef gengið hefði verið fest en þetta er staðan sem málið er í og það er mín skoðun að þessa deilu verði að leysa við samningaborðið. Í vinnudeilum er það þannig ef að ríkisvaldið skiptir sér af þá eru deilurnar ekki leystar og þeim bara frestað í einhvern óákveðinn tíma inn í framtíðina. Þessa deilu verða aðilar málsins að leysa úr því að þessi staða er komin upp,“ segir Benedikt því að aðalatriði málsins sé að það sé óskynsamlegt að menn haldi áfram að bíða eftir því að ríkið fari geri eitthvað til þess að samningar náist.
Það er klár afstaða mín að minnsta kosti, í þessu máli, að þetta er deila á vinnumarkaði sem ríkisvaldið á ekki að hlutast til um. Allt tal um að ríkisvaldið eigi að hlutast til um þessa deilu því að það sé ábyrgðaraðili gagnvart nýtingu auðlindarinnar þá er það nú svo að þeir aðilar sem tala svona segja svo eitthvað allt annað þegar kemur að því að ræða um afgjaldið sem greiða á fyrir nýtinguna á þessari sömu auðlind.
Afgjaldið tvöfaldast í ár
Benedikt sagði fyrir kosningar að það væru margir útgerðarmenn í stærri útgerðarfyrirtækjum á Norður- og Austurlandi sem hefðu skilning á því að það yrði að ríkja meiri sátt í þjóðfélaginu um það afgjald sem útgerðirnar greiddu fyrir afnot af hinni sameiginlegu auðlind, fiskimiðunum. Hann stendur við að það sé hans afstaða og sú hafi verið hugsunin með þeirri markaðsleið sem Viðreisn vildi fara í sjávarútvegsmálunum. „Tekjur af henni haldast þó vissulega í hendur við stöðu sjávarútvegsins og yrðu minni en áætlað var þegar afkoman versnar , svo að það er sátt innan ríkisstjórnarinnar um að sú staða sem nú er uppi sé ásættanleg. En málið verður í stöðugri skoðun og áætlað auðlindagjald komandi árs hefur verið reiknað að verði nálægt 9 milljörðum í stað þeirra 4,5 milljarða sem komu inn á síðastliðnu ári. Það skýrist af betri afkomu útgerðarinnar á árinu 2015 en ársið 2014 en það er bagalegt að greiðslur fyrir afnotin af auðlindinni komi til greiðslu tveimur árum eftir að tekjurnar hafa verið skapaðar. Það kemur sér til að mynda illa að þessar greiðslur komi til nú þegar umhverfi útgerðarinnar er mun verra.“
Í sjávarútvegsráðuneytinu er hafin vinna til að meta áhrif sjómannaverkfallsins en niðurstaða þeirrar vinnu liggur ekki fyrir.
Birtist fyrst í Austurlandi. Smelltu hér til að lesa blaðið.