Leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerir umræðuna hér á landi í kringum flóttamannatilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta að umfjöllunarefni sínu í blaðinu í dag. Greinilegt er að höfundur er hrifinn af Trump sem að hans sögn er ,,dugnaðarforkur‘‘ en segir þó að tilskipun hans muni hugsanlega engu skila. Fast er skotið á Pírata úr Hádegismóunum sem og Ríkisútvarpið fyrir umfjöllun þess um Trump og tilskipun hans.
Augljóst er að hún var flausturslega útfærð og kynningin ófullnægjandi,
segir í leiðaranum.
Höfundur segir það tvískinnung að enginn hafi gagnrýnt tilskipun Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseta frá árinu 2011 þar sem frestað var komu flóttafólks frá Írak um hálft ár, hvorki hér á landi né vestra.
Hvar eru mótmælin gegn aðgerðum stjórnvalda í Japan?
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, tilkynnti það fyrir skömmu að landið myndi ekki taka við neinum flóttamönnum eða innflytjendum því Japan myndi láta hagsmuni heimalandsins ganga fyrir. Þetta væri eitthvað sem koma myndi íslenskum ráðamönnum ,,í opna skjöldu en þó einkum það, að einhvers staðar sé talið að slíkir hagsmunir standi framar því sem henta kann fólki í fjarlægum heimshlutum.‘‘
Við þessi tíðindi munu þingmenn Pírata sjálfsagt fara yfir alla tölvuleiki sem þeir hafa spilað til þessa, sem er mikið verk, og kanna hvort fyrirbærið komi fram þar.
Leiðarahöfundur er handviss um það að íslenskir ráðamenn muni taka sendiherra Japans hér á landi á teppið og mótmæla þessum orðum Abe og því að Japanir taki ekki við flóttafólki og innflytjendum, ekki bara frá sjö ríkjum heldur öllum ríkjum heims uns ákveðnum ótilgreindum innanríkismálum er kippt í liðinn sem Abe segir að gæti gerst innan hálfrar aldar.
Ræður andúð á Bandaríkjunum og Trump för?
RÚV fær einnig á baukinn fyrir umfjöllun sína um tilskipun Trump og ,,hefur hamast eins og Pírati.‘‘ Gert er að því skóna að ástæða þess að svo mikið sé fjallað um Trump og Bandaríkin sé andúð á forsetanum og landinu í ákveðnum kreðsum hér á landi.
Því ætti að vera augljóst að Japan verði í erfiðum málum núna, þegar hin faglega íslenska réttlætishugsun fer í gang. Sú nær út fyrir öll mörk og eru landamæri þar sannarlega innifalin.