Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður og fyrrum innanríkisráðherra, er látin. Ólöf var 50 ára að aldri. Hún lætur eftir sig eiginmann og fjögur börn. Ólöf hafði lengi glímt við krabbamein.
Ólöf var fædd í Reykjavík þann 3. Desember 1966. Foreldar hennar voru Jóhannes Nordal seðlabankastjóri og Dóra Guðjónsdóttir Nordal, píanóleikari og húsmóðir. Hún var gift Tómasi Má Sigurðssyni forstjóra og áttu saman þau fjögur börn, Sigurð (fæddur 1991), Jóhannes (fæddur 1994), Herdísi (fædda 1996) og Dóru (fædda 2004).
Ólöf lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1986 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1994. Árið 2004 útskrifaðist hún með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
Deildarstjóri í samgönguráðuneyti 1996–1999. Lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands 1999–2001. Stundakennari í lögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst 1999–2002. Deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar Viðskiptaháskólans á Bifröst 2001–2002. Yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun 2002–2004. Framkvæmdastjóri sölusviðs hjá RARIK 2004–2005 er rafmagnssala var tekin inn í sérstakt fyrirtæki, Orkusöluna, framkvæmdastjóri Orkusölunnar 2005–2006. Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands 2013–2014. Innanríkisráðherra 4. desember 2014 til 11. janúar 2017.
Ólöf var formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Auðar á Austurlandi árin 2006–2009. Hún var formaður Spes, hjálparsamtaka vegna byggingar barnaþorpa í Afríku. Gegndi embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins 2010–2013 og 2015 til 2017.
Ólöf var fyrst kosin á þing árið 2007 sem þingmaður Norðausturkjördæmis 2007–2009. Árið 2009 bauð hún sig fram í Reykjavíkurkjördæmis suður 2009 og var þingmaður þess til 2013. Hún var aftur kosin á þing árið 2016.
Ólöf gegndi embætti innanríkisráðherra 2014–2016.
Ritstjórn Eyjunnar átti mikil og góð samskipti við Ólöfu á undanförnum árum, nú síðast aðeins fyrir örfáum dögum. Að leiðarlokum er þakkað fyrir góð kynni og fjölskyldu og vinum sendar dýpstu samúðarkveðjur.