Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar biðst afsökunar á ummælum sem hann lét falla í ræðustól Alþingis þar sem hann vísaði til þingkvenna sem „hagsýnna húsmæðra“ við umræður um verklag við opinber fjármál. Ummælin vöktu hörð viðbrögð og gagnrýndi Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna Benedikt fyrir ummælin við upphaf þingfundar í dag. Spurði Bjarkey hvort sambærileg ummæli hefðu verið látin falla ef meirihluti þingmanna hefði verið karlar. Sagði hún að orðanotkun skipti máli og þessi ummæli væru ekki í lagi, undir það tóku nokkrir aðrir þingmenn. Benedikt segir á Fésbókarsíðu sinni ummælin kjánaleg og biðst hann afsökunar á þeim:
Í ræðustól Alþingis vísaði ég til þingkvenna sem hagsýnna húsmæðra. Það var tilraun til þess að gefa hnyttið andsvar við fyrri ræðu, en hún heppnaðist afleitlega. Um leið og ég heyrði mig segja þetta hugsaði ég: „Þú ert nú ekki alltaf jafn orðheppinn Benedikt.“
Þetta voru kjánaleg ummæli og ég biðst afsökunar á þeim.