Fella þarf tilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem bannar fólki frá ákveðnum löndum að koma til Bandaríkjanna, úr gildi sem fyrst og ætti tilskipunin að vera í síðasta skiptið sem við leyfum slíku að gerast. Þetta segir Haraldur Þorleifsson forstjóri tæknifyrirtækisins Ueno sem hefur höfuðstöðvar sínar í San Francisco. Í pistli sem Haraldur skrifar á vefsíðuna Medium heitir hann því að gefa 25 þúsund dollara til styrktar sýrlenskum flóttamönnum vegna flóttamannatilskipunar Trump Bandaríkjaforseta. Að sögn Haraldar er málið einfalt:
,,Það er engin réttlæting fyrir því sem er að eiga sér stað.‘‘
Að sögn Haraldar er það ekki þannig að aðgerðir Trump séu án fordæmis eða að fólk sé betra en það að setja svona reglur á. Bann Trump tekur til sjö ríkja sem flest eiga það sameiginlegt að vera fátæk og meirihluti íbúa múslimar en þau eru Íran, Írak, Sómalía, Jemen, Súdan, Líbýa og Sýrland.
Þetta bann beinist gegn múslimum að mati Haraldar og hann segir nauðsynlegt að berjast á móti því með öllum tiltækum ráðum. Fella þurfi þessa tilskipun Trump úr gildi sem fyrst.
Þetta ætti að vera síðasta skiptið sem við leyfum svona löguðu að gerast.
„Fólk á ekki að þurfa að skara fram úr til að fá að lifa“
Tæknibransinn vestanhafs treystir á að klárt og hæft fólk hvaðanæva að úr heiminum geti komist til Bandaríkjanna og lagt sitt af mörkum. Mörg af fyrirtækjum Kísildals voru stofnuð af innflytjendum og er Ueno þar engin undantekning. Haraldur segir að þó að innflytjendur séu margir í bransanum þá eigi það ekki að vera skilyrði fyrir því að fólk fái að lifa að það skari fram úr í hugviti og viðskiptagáfum.
Það skiptir ekki máli að mikið sé um innflytjendur sem stofna fyrirtæki, séu hugvitssamir og með leiðtogahæfni í okkar bransa, vegna þess að fólk á ekki að þurfa að skara fram úr til að fá að lifa.
Það skiptir ekki máli að fyrirtækið okkar hafi verið stofnað af innflytjendum því að það ætti ekki að þurfa persónulegar tengingar við atburði sem snúnast í grunninn um grundvallarmannréttindi.
Haraldur segir að það eina sem skipti máli í umræðunni um bannið sé að hér sé um mannslíf að ræða. Manneskjur hafa allar sama rétt og eiga skilið hamingju og frið.
„Við munum sigra“
,,Ueno er lítið fyrirtæki með litla rödd en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn þessu óréttlæti. Fyrsta verk okkar verður að gefa 25 þúsund dollara (2,8 milljónir) til aðstoðar sýrlenskum flóttamönnum.‘‘
Aðgerðir Trump eiga sér engar málsbætur að mati Haraldar og enginn rök knýi að því að styðja hana. Engrar umræðu sé þörf og engin málamiðlun sé í sjónmáli.
Við munum ekki þegja, við munum ekki leyfa þessu að viðgangast og við munum sigra.