„Við getum ekki dvalið um of við liðna atburði. Það er þó ljóst að flokkur sem hefur minnkað úr 20 þingmönnum í 3, á nokkrum árum verður að hugsa sinn gang. Ástæður fyrir þessum ógöngum eru fjölmargar og samtvinnaðar og við skulum ræða þær af festu og hófsemd, en ekki til þess að leita að einstökum blórabögglum.“
Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundi í gær.
Hann sagði öruggt að ekki sé hægt að kenna kjósendum um. „Og það hjálpar okkur ekki að tala sífellt um að meirihluti Íslendinga séu jafnaðarmenn ef við náum ekki eyrum þeirra,“ sagði hann.
„Reyndar eiga jafnaðarmenn víða um álfuna í nokkrum vanda. Kannski höfum við misst talsambandi við almenning. Við höfum beint sjónum okkar að ákveðnum hópum sem vissulega eiga heima undir regnhlíf jafnaðarstefnunnar. En við það hefur öðrum fundist þeir afskiptir. Þegar við ætlum að lyfta einum hóp upp, þurfum við oftast kerfisbreytingar; afla meira fé í samneysluna. Að öðrum kosti er hætt við að jafnharðan og við lyftum einum upp ýtum við öðrum niður. Við þurfum því að berjast fyrir slíkum breytingum. Ef við ætlum að snúa vörn í sókn er heldur ekki nóg að kunna utanbókar svörin við samfélagi gærdagsins, ekki fullnægjandi að skilja samtímann; við þurfum umfram allt að takast á við framtíðina og þeim áskorunum sem í henni felast,“ sagði Logi ennfremur.
Formaður Samfylkingarinnar sagði að komið hefði þægilega á óvart, hversu mikill áhugi var á Samfylkingunni í stjórnarmyndunarviðræðum, þrátt fyrir lítinn þingstyrk.
Hræðsla og fordómar við nýjan og fjölbreyttari kúltúr
„Það voru mikil vonbrigði að ekki tækist að mynda fimm flokka stjórn. Að mínu mati var enginn sá ágreiningur sem ekki hefði verið hægt að leysa, a.m.k. ef miðað var við kosningastefnur flokkanna. Þá sýndist mér ljóst að enginn þessara fimm flokka myndi ná betri niðurstöðu í öðrum viðræðum. Og það hefur komið á daginn. Kannski strandaði þetta þegar öllu var á botninn hvolft ekki á málum heldur fordómum og hræðslu við nýjan og fjölbreyttari kúltúr. Mér finnst það ömurlegt.
Það hefði þurft sterkari jafnaðarflokk, á miðju litrófinu, svo hægt hefði verið að líma þetta saman. Enn einu sinni var sundrung félagshyggjuafla vatn á myllu Sjálfstæðisflokksins.
Niðurstaðan var því sú að tveir flokkar, sem reru talsvert á okkar mið, köstuðu kosningarloforðum síðan fyrir róða og leiddu til valda forsætisráðherra sem nefndur var í Panama skjölunum. En þau voru megin ástæða kosninganna. Hann hefur síðan orðið uppvís að því að leyna þingið tveimur mikilvægum skýrslum; annarri sem afhjúpaði siðleysi efnaðs fólks sem kom sér hjá því að taka þátt í samneyslunni og hinni sem sýndi hvernig fyrrum ríkisstjórn mokaði peningum í ríkari hluta þjóðarinnar í nafni sanngirni og leiðréttingar.
Ég ætla ekki að þreyta ykkur á að teikna nákvæmlega upp þá mynd, sem blasir við þegar horft er á nýja ríkisstjórn, hana þekki þið jafnvel og ég. Þó er ljóst að við munum þurfa að berjast áfram gegn vaxandi ójöfnuði og félagslegum óstöðugleika. Slást gegn frændhygli og einkavæðingu í opinberri þjónustu. Í stefnuræðu forsætisráðherra notaði hann orðið jafnvægi. Það merkir í hans orðabók, óbreytt ástand; stöðnun,“ sagði Logi Einarsson.