Í dag, föstudaginn 3. febrúar, verður forsetasetrið að Bessastöðum opið almenningi sem liður í Vetrarhátíð og Safnanótt 2017. Gestum býðst að skoða Bessastaðastofu milli klukkan 18:00 og 22:00.
Auk hinna merku steinhúsa frá 18. öld geta gestir virt fyrir sér sýnishorn gjafa, sem forseta hafa borist og fornleifar sem veita innsýn í búsetu á Bessastöðum frá landnámstíð. Gestir munu geta skoðað Bessastaðastofu alla sem og móttökusal og bókhlöðu forsetasetursins.
Þá mun fyrsti forsetabíll lýðveldissögunnar, Packard bifreið Sveins Björnssonar, standa í hlaði Bessastaða en bifreiðin er ríflega sjötug, árgerð 1942. Þar verður einnig sýnd Cadillac bifreið embættisins, hún er árgerð 1990.
Starfsmenn embættis forseta verða til leiðsagnar auk þess sem nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og nemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands verða gestum til aðstoðar.