Ríkisstjórnin kemur til með að stórbæta aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins en um miðjan mars verður opnaður vefurinn opnirreikningar.is þar sem hver sem er getur nálgast greiðsluupplýsingar rúmlega 200 ríkisstofnana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, en málið var til umræðu hjá ríkisstjórninni í dag. Vinna við verkefnið hófst í fyrra og er henni að mestu lokið.
Gert er ráð fyrir að árlega muni birtast á bilinu 300-400 þúsund reikningar vegna kaupa ríkisins á vörum og þjónustu. Hægt verður að leita að reikningum á vefnum með ýmsum leiðum, t.d. út frá stofnunum eða tegund kostnaðar. Á vefnum verða ennfremur birt skönnuð fylgiskjöl með reikningum, en með því gengur Ísland lengra en önnur ríki sem hafa unnið svipuð verkefni.
Sérstaklega hefur verið hugað að öryggismálum og sjónarmiðum um persónuvernd og sérstakar síur koma í veg fyrir að viðkvæmar persónuupplýsingar birtist, svo sem vegna læknisheimsókna, bóta eða launa. Í fyrstu verða upplýsingar frá aðalskrifstofum ráðuneyta aðgengilegar á nýja vefnum. Í næstu áföngum verða stofnanir í A-hluta ríkissjóðs hluti af kerfinu. Stefnt er að því að verkefnið verði að fullu komið til framkvæmda um áramót.