„Íslenska ríkið greiðir næsthæstu upphæð á hvern í íbúa til síns ríkismiðils. Einungis Norðmenn greiða hærri upphæð á haus en við. Engum þessara miðla utan Íslands er gert að afla sér auglýsingatekna á samkeppnismarkaði, Ríkisútvarpið eitt býr við þá kvöð. Þriðjungs af tekjum Ríkisútvarpsins er aflað í harðri samkeppni um auglýsingafé, sem háð er daglega við einkamiðla.“
Þetta segir í bréfi sem Sævar Freyr Þráinsson hjá 365 miðlum, Rakel Sveinsdóttir hjá Hringbraut, Kristján Kristjánsson hjá ÍNN, Orri Hauksson hjá Símanum og Arnþrúður Karlsdóttir hjá Útvarpi Sögu rita í Morgunblaðið í dag. Segja þau róður einkamiðla sífellt þyngri vegna alþjóðlegrar þróunar á fjölmiðlamarkaði sem og fyrirkomulagsins á Íslandi. Segja þau útlitið mun bjartara ef ríkið tæki ekki bróðurpart tekna á fjölmiðlamarkaði til sín. Nú sé nefnd að störfum sem hafi það hlutverk að skoða stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi, ætti það að vera vera fyrsta verkefni nefndarinnar að skapa íslenskum fjölmiðlum sama rekstrarumhverfi og þekkist í nágrannalöndunum. Benda þau á að hér á landi voru auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins um 2,8 milljarðar frá 1. september 2014 til loka árs 2015:
Tekjur ríkisrekinna fjölmiðlafyrirtækja í Evrópu, utan Ríkisútvarpsins, eru eingöngu í formi árlegs útvarps- eða afnotagjalds og af sölu á sjónvarpsefni framleiddu í heimahögum. NRK í Noregi, SVT í Svíþjóð, DR í Danmörku og BBC í Bretlandi eru nær eingöngu rekin fyrir almannafé. Alls 97% tekna NRK á árinu 2015 fengust með afnotagjöldum, sem norskum almenningi ber að greiða. Hlutfallið var 96,5% hjá SVT sama ár, 92% af tekjum DR og 77,5% hjá BBC. Afgangurinn var afrakstur sölu velheppnaðra sjónvarpsþáttaraða og heimildamynda til annarra landa.
Yfirburðastaða RÚV setur verulegar hömlur á dagskrárgerð einkamiðla
Á þessu sama tímabili benti Samkeppniseftirlitið á að samkeppnislegur jöfnuður á fjölmiðlamarkaði kunni að vera í hættu með núverandi skipulagi. Í svartri skýrslu starfshóps menntamálaráðherra sem kom út haustið 2015 kom í ljós að RÚV skuldaði þá um 6,6 milljarða og að lögboðið eftirlit með RÚV væri ekki virkt, þar á meðal hjá Ríkisendurskoðun, daginn eftir lögðu stjórnendur Ríkisútvarpsins fram kröfur um 5,9 milljarða króna skilyrt viðbótarframlag til ársins 2020 ella verði RÚV að skera niður þjónustu.
Segja þau Sævar Freyr, Rakel, Kristján, Orri og Arnþrúður að á landi sé staðan allt önnur en í nágrannalöndunum, Ríkisútvarpið sé með yfirburðastöðu, sem fæst með skylduáskrift og fjölbreyttum aðstöðumun gagnvart einkamiðlunum:
Þannig dregur hið opinbera til sín sífellt stærri hluta íslensks auglýsingafjár í ljósvaka. Eins og gefur að skilja setur þetta fyrirkomulag verulegar hömlur á möguleika einkarekinna miðla til að skapa dýra og metnaðarfulla dagskrá. Einkareknir miðlar geta hvorki stundað öfluga fjölmiðlun – né stuðlað að sífelldu og auknu framboði af íslensku gæðaefni fyrir almenning – nema hafa möguleika á að afla sér tekna.