Bæjarstjórn Árborgar hefur á síðustu árum komið á fót nokkrum ráðum sem er ætlað að vera samráðsvettvangur bæjarstjórnar og íbúa. Er þar um að ræða hverfisráð, ungmennaráð og öldungaráð. Eru ráðin liður í því að auka aðkomu íbúa að umfjöllun um málefni sveitarfélagsins og gefa þeim þar með kleift að hafa meiri áhrif á ákvarðanir sem teknar eru. Öldungaráðið er yngst þessara ráða, stofnað 2015, en lengst er síðan Ungmennaráðið var stofnað, eða árið 1998.
Öldungaráðið er skipað þremur fulltrúum íbúa, kosnum af félögum eldri borgara, og tveimur bæjarfulltrúum, kosnum af bæjarstjórn. Ráðið fundar með félagsmálastjóra og hefur látið ýmis málefni eldri borgara til sín taka, ekki síst stöðu mála hvað varðar þjónustu við aldraða, einkum hjúkrunarrými. Ráðinu er ætlað að vera bæjarstjórn, nefndum og ráðum Árborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni sem varða íbúa sveitarfélagsins 67 ára og eldri, en ráðið er ekki framkvæmdaaðili.
Ungmennaráðið er fjölmennast, fulltrúar í ráðinu eru tilnefndir af ýmsum aðilum, s.s. frjálsum félagasamtökum og grunnskólunum í sveitarfélaginu. Ungmennaráð sveitarfélaga eiga sér stoð í æskulýðslögum. Ungmennaráðið fundar reglulega og ályktar um ýmis málefni sem varða ungt fólk eða aðra íbúa. Í vetur bauðst fulltrúum úr Ungmennaráði að taka sæti sem áheyrnarfulltrúar á fundum nefnda sveitarfélagsins og hafa þeir þar málfrelsi og tillögurétt.
Önnur sveitarfélög hafa horft til Ungmennaráðs Árborgar sem fyrirmyndar að stofnun slíkra ráða innan sinna vébanda og hafa fulltrúar úr Ungmennaráði staðið fyrir kynningum á starfinu og þeim verkefnum sem þau hafa unnið að. Ráðið fundar með tómstunda- og forvarnarfulltrúa sveitarfélagsins og að auki einu sinni á ári með bæjarstjórn þar sem fjölbreyttar tillögur hafa verið lagðar fram og margar hverjar komist til framkvæmda.
Hverfisráðin eru fjögur talsins, eitt á Selfossi, annað í fyrrum Sandvíkuhreppi og sitthvort ráðið fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri. Allir íbúar, aðrir en kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn, geta boðið fram krafta sína til setu í ráðunum. Hverfisráðunum er skv. samþykktum ætlað að vera vettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og bæjaryfirvalda.
Starfsemi hverfisráðanna hefur verið mjög mismunandi og hafa þau verið misjafnlega virk og heldur dregið úr virkni þeirra flestra síðustu misseri. Í vetur fór því fram umræða innan bæjarstjórnar um leiðir til að efla ráðin og var horft til þess hvað væri ólíkt með þeim og Ungmennaráðinu og hvort hægt væri að efla hverfisráðin með því að sækja fyrirmynd til skipulags og starfsemi Ungmennaráðsins. Í framhaldi af því var ákveðið að tveir bæjarfulltúar yrðu tilnefndir sem tengiiðir við hvert hverfisráð til að þau hefðu nánari tengsl við stjórnsýsluna.
Gengið var frá tilnefningum bæjarfulltrúa sem tengiliða við ráðin í síðasta mánuði í framhaldi af kjöri nýrra hverfisráða. Boðað hefur verið til sameiginlegs fundar allra hverfisráðanna með bæjarfulltrúum í þessari viku og er í framhaldinu vonast til þess að hverfisráðin eflist og dafni líkt og Ungmennaráðið og Öldungaráðið. Hverfisráð Selfoss er hið eina sem eru fullskipuð fimm aðalmönnum og er íbúum á Eyrarbakka. Stokkseyri og í fyrrum Sandvíkurhreppi bent á að hafa samband við Ráðhús Árborgar ef þeir hafa áhuga á að sitja í hverfisráði.
Ásta S. Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.