Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness er tekinn tali í héraðsfréttablaðinu Vesturlandi sem kom út í dag.
Áréttað skal að viðtalið fór fram á Akranesi í gærmorgun, áður en það lá fyrir að HB Grandi féllist á að ganga til tímatakmarkaðra viðræðna við bæjarstjórn Akraness um framtíð bolfiskvinnslu á vegum fyrirtækisins í bænum.
Hér fer viðtalið:
Árið 2004 þegar sameiningin sem endaði í stofnun HB Granda var að eiga sér stað voru hér á Akranesi rúmlega 100 sjómenn félagar í Verkalýðfélaginu. Í dag eru þeir 34 talsins. Ég hugsa að um 300 manns hafi alls verið á launaskrá hjá Haraldi Böðvarssyni hf. árið 2004. Afleidd störf voru svo miklu fleiri. En í dag eru þetta 93 starfsmenn sem vinna við bolfiskvinnsluna hér á Skaganum á vegum HB Granda og þau eiga nú öll á hættu að missa vinnunna,
segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Stöðug og mikil fækkun
Á mánudag tilkynntu stjórnendur HB Granda að fyrirtækið ætli að hætta vinnslu bolfisks á Akranesi. Ástæðan mun vera fyrirsjáanlegt tap á vinnslunni þar. Fólk missir atvinnu sína.
Okkur þykir þetta kannski mikill fjöldi í dag, 93 manneskjur. En takið eftir að sínum tíma fyrir rétt rúmum áratug þegar sameiningin átti sér stað þá voru þetta 300 manns. Það er ekki hægt að segja annað en að við höfum orðið fyrir skelli. Svo er annað sem gleymist að það er nýbúið að loka Laugafiski sem vann þurrkaðar fiskafurðir. Sú starfsemi er farin. Þar voru 26 ársverk. HB Grandi er nú búið að fjárfesta í annarri fiskþurrkun á Suðurnesjum sem heitir Haustak. Saga Laugafisks á Akranesi er öll. Framtíðaruppbyggingin sem menn voru með í huga varðandi Laugafisk hér á Skaganum er út úr myndinni. Þetta gerist nú allt þó við sjáum að nýbúið er að setja mikla peninga í að laga skrifstofuhúsnæði HB Granda á Akranesi. Þetta er stórglæsilegt en stendur allt tómt.
Vill að menn staldri við
Vesturland hitti Vilhjálm á skrifstofu hans á miðvikudagsmorgun. Seinna um daginn stóð fyrir dyrum nýr fundur með stjórnendum HB Granda. Þar ætluðu þeir að tilkynna ákvörðun sína í málinu, ekki síst í ljósi þess að bæjarstjórn Akraness samþykkti viljayfirlýsinu á fundi á þriðjudag um það farið yrði í meiriháttar umbætur á hafnarsvæðinu á Akranesi ef HB Grandi drægi áform sín til baka.
Vilhjálmur á skrifstofu sinni.
Það sem ég legg áherslu á núna er að reyna að fá fyrirtækið til fresta þessum áformum um uppsagnir. Þar mun ég vísa í viljayfirlýsingu bæjarstjórnar. Frestunin mun þá gilda fyrir þann tíma sem þessi vinna á sér stað við yfirferð á viljayfirlýsingunni. Ég geri líka athugasemdir við það að samráði fyrirtækisins við stéttarfélagið og fleiri sé ætlaður allt of skammur tími. Ég hef kallað eftir upplýsingum frá stjórnendum HB Granda t. a. m. um það hver afkoma bolfiskvinnslunnar sé hér á Akranesi. Samkvæmt lögum verða þeir að færa fram gild rök fyrir hópuppsögn og þetta eru grundvallarupplýsingar í því samhengi. En mér er neitað um þær upplýsingar og sagt að þetta séu trúnaðarupplýsingar sem ekki megi láta af hendi því fyrirtækið sé skráð í Kauphöll Íslands. Mér finnst það mjög alvarlegt ef lög um hópuppsagnir stangast með þessum hætti á við lög um kauphallarviðskipti. Ég mun klárlega gera athugsemdir við þetta.
Lokakaflinn liggur fyrir
Við spyrjum Vilhjálm Birgisson hvort hann sé bjartsýnn?
„Nei, ég er ekki bjartsýnn en ég vil vera það.
Hvað áttu von á að gerist ef allt fer á versta veg?
Þá erum við að skrifa lokakaflann í sögu fiskvinnslu á Akranesi í þeirri mynd sem við höfum þekkt. Það má segja að við séum búin að vera að skrifa eina og eina blaðsíðu í þeirri sögu núna mörg undanfarin ár þar sem menn hafa verið að loka þessu. Menn muna hér vel gömlu tímana þegar öll frystihúsin voru hér í bænum. Haförninn, HB&Co, Heimaskagi og Þórður Óskarsson. Hér óku rútur um bæinn og tóku fólk upp á morgnana, í hádeginu og á kvöldin til að flytja það í og úr vinnu við fiskvinnsluna. Við eru að lifa sorgardaga ef áform HB Granda nú verða að veruleika.
Sjávarútvegsráðherra sýnir klær
Formaður VLFA segist nú kalla eftir því að stjórnvöld velti því fyrir sér núna hvort þetta sé það fyrirkomulag á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem menn vilja hafa?
„Það er að menn hafi þetta ægivald til að svipta samfélögin lífsviðurværi og skilja fólkið eftir í sárum.“
Hann segist hafa átt langt símasamtal fyrr í vikunni við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegráðherra og þingmanns Viðreisnar.
„Það er kjaftur á henni. Hún er vígaleg. Henni langar í slag við þá og þeir eru skíthræddir við hana. Ég sá það í sjómannaverkfallinu. Hún er svona töffari.“
Hvað með fólkið sem vinnur nú hjá HB Granda á Akranesi? Á það möguleika á vinnu hjá fyrirtækinu á öðrum starfsstöðvum þess?
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútgvegsráðherra hefur rætt við Vilhjálm um málefni HB Granda á Akranesi.. Eyjan/Gunnar
„Nei, það er það sem að kom fram strax í upphafi á fyrsta fundinum sem ég átti með stjórnendum HB Granda á mánudag. Það er nokkuð sem þeir geta alls ekki lofað. Þeir segja að slíkt hafi ekkert verið rætt og mér fannst svona frekar að heyra á forstjóra HB Granda að það yrði ekki um auðugan garð að gresja í þeim efnum án þess að hann útskýrði það nánar. Ég er ekki að sjá að það verði fjárhagslega hagkvæmt fyrir fiskvinnslufólk að aka á milli Akraness og Reykjavíkur alla leið út á Granda til að sækja vinnu þar.“
Mannauð fleygt fyrir róða
Það má greina mikinn þunga og alvöru í rödd Vilhjálms. Hann verður hugsi og flettir í nokkrum blöðum á borði sínu.
Það er skrítið að heyra að á sama tíma og það koma fregnir um að landvinnsla á bolfiski gangi ekki upp fjárhagslega hér á suðvesturhorninu, að þá skuli maður horfa upp á að fyrirtækið sé að byggja upp bolfiskvinnslu með einum 60 störfum austur á Vopnafirði. Hinum megin á landinu.
Hann lítur upp.
Þetta eru 80 til 90 prósent konur,
segir hann og á þar við fólkið sem nú á hættu á að missa vinnuna.
Sömuleiðis eru um 80 prósent starfsmannanna innfæddir Akurnesingar sem hafa búið hér í áratugi og jafnvel allt sitt líf. Eitthvað um 20 prósent eru svo með erlent ríkisfang en hafa búið hér á landi árum eða áratugum saman og eru löngu orðin hluti af okkar samfélagi. Þarna er samankomin afar verðmætur mannauður sem býr yfir gríðarlegri verkþekkingu og reynslu sem vart á sér hliðstæðu í fiskvinnslu á Íslandi. Öll þessi þekking á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarbúsins er nú við það að tapast á altari arðsemiskröfunnar. Er það virkilega svo að menn meti þetta þjóðhagslega hagkvæmt?
Þolinmæði á þrotum
Sjálfur svarar hann þessari síðustu spurningu sinni með því með því að hrista höfuðið, en bætir svo við:
Hús HB Granda á Akranesi sem áður hýsti aðalstöðvar Haraldar Böðvarssonar hf. Það fyrirtæki var stofnað 1906.
Ég held að menn þurfi að hugsa sig tvisvar um. Það er náttúrlega þessi samfélagslega ábyrgð sem á að hvíla á herðum þessara manna sem hafa nýtingarréttinn á sjávarauðlindinni tímabundið í sínum höndum. Við sem þjóð höfum auðvitað horft á dæmi um það hvernig þessi fyrirtæki hafa farið eins og skýstrókar yfir sveitarfélög og skilið þau eftir stórlöskuð. Þetta hefur maður horft upp á á Vestfjörðum, Húsavík og fleiri stöðum. Nú held ég að það sé komið að því að smíða regluverk í kringum þetta kerfi sem byggðafesti fiskveiðiheimildirnar svo að menn geti ekki lengur leikið sér með afkomu fólks og heilu samfélaganna. Þetta getur ekki fengið að ganga svona lengur.
Hér fyrir neðan má lesa Vesturland á rafrænu formi: