Þór Saari fyrrverandi þingmaður og frambjóðandi Pírata í síðustu þingkosningum hvetur Pírata til að taka skýlausa afstöðu til samnings borgarinnar við Ólaf Ólafsson í ljósi niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem birt var í dag. Þar sem Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata sé hluti af meirihlutanum í borginni þá sé full ástæða til að hvetja hann til að segja sig frá því samstarfi ætli meirihlutinn í borgarstjórn ekki að rifta samningnum við Ólaf um lóðir og byggingar í Vogahverfi:
Hér er um að ræða samning við dæmdan svikahrapp sem fékk fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir fjárglæfra og svik og væri Búnaðarbankafléttan ekki fyrnd yrði hann ugglaust dæmdur aftur í fangelsi. Einnig er mikilvægt að Píratar myndi sér afstöðu varðandi fyrningarákvæði laga, sem fyrst og fremst virðast sett til að vernda sérstaka tegund glæpona hverra mál tekur mörg ár að rannsaka,
segir Þór í færslu á Pírataspjallinu, undir hans sjónarmið tók meðal annarra Sara Óskarsson varaþingmaður Pírata. Líkt og Eyjan greindi frá í byrjun mánaðarins skrifaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undir samning við fasteignafélagið Festi, sem er í eigu Ólafs, um byggingu íbúða við Gelgjutanga. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna spurði Þór hvert tilefnið ætti að vera:
Að hann er dæmdur glæpamaður sem hefur setið af sér? Að borgin á ekki í viðskiptum við fólk með vafasama fortíð eða flekkað mannorð? Eða siðleysingja? Eða að borgin fari í manngreiningarálit þegar það kemur að framkvæmdum eða lóðasölu eða veitingu þjónustu? Það er auðvitað ekki hægt – ekki frekar en við mismunum fólki eftir kynferði, trúarbrögðum eða kynhneigð,
sagði Líf. Bætti hún við að samningarnir væru borginni í hag, ekki síst til að tryggja framgang félagslegrar húsnæðisstefnu. Undir það tók Halldór Auðar sem sagði ábyrgðina ekki liggja hjá meirihlutanum því allir borgarfulltrúar hefðu samþykkt samningana:
„Ábyrgðin liggur því ekki eingöngu hjá flokkunum sem mynda meirihluta og því á tal um að Píratar eigi að rifta meirihlutasamstarfi vegna þessa frekar illa við.“
Lágt plan að taka geðþóttaákvarðanir í trássi við lög
Þór sagði svör þeirra Lífar og Halldórs vera aum:
Aum eru svör VG og Pírata, en þó svo klassísk fyrir íslensk stjórnmál. Bætt skal böl að benda eitthvað annað. Takið ykkur nú saman í andlitinu og riftið þessum samningi við Ólaf í stað þess að endalaust reyna að bera í bætiflákan og gerið ykkur grein fyrir því að þessi gagnrýni kemur til af því að það eru gerðar til ykkar meiri og dýpri siðferðiskröfur en annarra. Eitthvað sem þið ættuð að vera stolt af.
Líf sagði Þór að kynna sér málið betur, þá myndi hann draga orð sín til baka:
Við förum eftir lögum og reglum. Annað en sumir flokkar eins og rannsóknarskýrslan hefur sýnt okkur. Ekki ætla ég að leggjast á það lága plan að taka geðþóttaákvarðanir í trássi við stjórnsýslulög – almenn lög og reglugerðir – sem borgarfulltrúar eiga að starfa eftir.