Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands fagnar því að ríkisstjórnin taki afgerandi afstöðu gegn því að ríkið taki á sig hluta af launakostnaði útgerðanna og taki upp sjómannaafsláttinn að nýju. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur sagt það ekki til umræðu að taka upp sjómannaafslátt á ný og hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra útilokað lagasetningu þar sem það sé sjómanna og útgerðarmanna að leysa kjaradeiluna.
Mikill þrýstingur er á deilan leysist sem fyrst, bæði hefur hún áhrif á sjómenn og fjölskyldur þeirra, sveitarfélög og á sjávarútvegsfyrirtækin sem velta milljörðum á hverju ári. Sjómannaverkfallið hefur nú staðið yfir í einn og hálfan mánuð og virðist enn mikið bera í milli í deilunni, telja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að kröfur sjómanna kosti útgerðina um fjóra milljarða á ári en sjómenn telja kostnaðinn hins vegar vera í kringum þrjá milljarða.
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Framsóknarflokksins segja að stjórnvöld geti gripið inn í með öðrum hætti en með lagasetningu. Í gær sagði Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims í Morgunútvarpinu á Rás 1 að hann vilji að sjómenn njóti dagpeningagreiðslna en skattafrádráttur er heimill á móti slíkum greiðslum. Stefán segir í pistli hér á Eyjunni að kröfurnar snúist beinlínis um að almenningur taki að sér að greiða hluta launakostnaðar útvegsmanna:
Það væri eins fáránlegt við núverandi aðstæður og nokkuð gæti orðið! Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur batnað um nærri 350 milljarða frá hruni og til 2015 (samanlagt eigið fé og arðgreiðslur til eigenda). Á meðan það gerðist fór þjóðin í gegnum djúpa kreppu – almenningur tapaði kaupmætti og eignum. Pælið í því!,
segir Stefán. Arðgreiðslurnar hafi numið rúmum 50 milljörðum frá 2010 til 2015, á sama tíma hafi veiðigjöldin lækkað rúmlega 12 milljörðum á ári í um 4,8 milljarða:
Í stað þess að við því sé orðið kemur nú upp sú krafa að almenningur taki á sig hluta af launakostnaði útgerðanna! Því ber að fagna að talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa tekið afgerandi afstöðu gegn slíkum inngripum stjórnvalda. Vonandi heldur sú afstaða alla leið.
Stefán segir að ef útvegsmenn skyldu færa hluta launagreiðslna sinna í form skattfrjálsra dagpeninga til að leysa kjaradeiluna þá hljóti stjórnvöld að hækka veiðigjöldin sem nemur slíkum skattafslætti:
Annað væri óverjandi. Þeir sem fá dagpeninga ofaná laun, vegna starfa fjarri heimilum sínum, fá slíkar greiðslur til að mæta kostnaði við gistingu og uppihald. Slíkt er hins vegar veitt um borð í fiskiskipunum og dagpeningar eiga því varla við í tilviki sjómanna. Útvegsmenn eiga því einir að greiða launakostnað sjómanna. Upp í topp.
Það væri með öllu óboðlegt að ýta hluta hans yfir á almenna skattgreiðendur, sem flestir hafa mun lægri laun en tíðkast í fiskveiðum.