Fylgst var með samningaviðræðum útgerðarmanna og sjómanna í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu fyrir jól og var ráðuneytið í sambandi við deiluaðila. Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. Skorað hefur verið á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að setja lög á verkfall sjómanna þar sem miklir þjóðarhagsmunir séu í húfi. Sagði Þorgerður Katrín í morgun að það hefði verið æskilegt að koma ekki að tómu borði í ráðuneytinu. Gunnar Bragi hafnar þessum orðum og segir ráðherra á flótta undan eigin ábyrgð. Bjartsýni hafi ríkt í ráðuneytinu um að samningar næðust um eða eftir síðustu jól, en nú eftir áramót sé orðið ljóst að ekki nást samningar:
Það kemur þó ekki á óvart að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reyni að fría sig ábyrgð á framtaksleysinu. Augljóst er að ráðherrann hefur ekki fylgst með gangi viðræðna síðustu vikur. Líklega hefur tími ráðherrans farið í að efna til ófriðar um landbúnaðinn líkt og orðið er,
segir Gunnar Bragi:
Alvarlegastar eru þó yfirlýsingar ráðherrans í þingsal að útiloka sértækar aðgerðir til að liðka fyrir lausn málsins.
Sjómannadeilan á að vera forgangsverkefni stjórnvalda
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að mikilvægt sé að leysa sjómannadeiluna án lagasetningar. Telur hún að sjómannadeilan eigi að vera forgangsefni stjórnvalda og það þurfi að meta þjóðhagslega tjónið strax:
Ríkisstjórnin getur ekki látið reka á reiðanum þegar helsta atvinnugrein landsins er í lamasessi og veldur þjóðarbúinu ómældu tjóni,
segir Lilja. Sakar hún ríkisstjórnina fyrir það að vera óundirbúin og ekki hafa látið meta þjóðhagslegt tjón verkfallsins.
Atvinnuveganefnd fer fram á úttekt á áhrifum verkfallsins
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur farið fram á það við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gerð verði úttekt á þjóðhagslegum áhrifum sjómannaverkfallsins, er vonast til að gögn fáist frá ráðuneytinu í næstu viku. Vill nefndin að lagt verði mat á áhrif verkfallsins á sveitarfélög, einkum þau sem treysta á sjávarútveg. Dregnar verði fram upplýsingar um áhrif á tekjur sveitarfélaga og ríkissjóðs, hagvaxtarspár og þróun vinnumarkaðar. Mat verði lagt á áhrif verkfallsins á stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á erlendum mörkuðum til lengri og skemmri tíma. Einnig verði metin áhrif verkfallsins á þriðja aðila, svo sem tekju- og atvinnumissir fiskvinnslufólks og starfsfólks í stoðgreinum sjávarútvegsins.