fbpx
Þriðjudagur 20.maí 2025
Eyjan

Landhelgismálin – frá hinni hliðinni

Egill Helgason
Fimmtudaginn 2. júní 2016 09:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru orðin þrjátíu ár síðan, það var veturinn 1986 að ég fór í siglingu með netabátnum Óskari Halldórssyni til Grimsby og Hull. Þetta var söluferð – þá var reyndar farið að draga verulega úr því að lítil skip eins og þessi sigldu með afla til enskra hafna – hugmyndin með greinarskrifunum fyrir tímaritið Mannlíf var að kanna hvað íslenskir sjómenn upplifðu í þessum gamalfrægu hafnarborgum.

Ég varð margs vísari. Þarna talaði ég við fólk sem þekkti ýmsar hliðar á Íslendingum. Fólk á knæpum, alþýðufólk, gamla sjómenn, konur sem höfðu starfað við vændi. Áhöfnin á Óskari Halldórssyni var býsna skrautleg – það kom til ryskinga strax fyrsta kvöldið í Grimsby, barist var með billjardkjuðum og -kúlum, svo kom lögreglan og sagði að við skyldum hypja okkur yfir til Hull. Sumir úr áhöfninni voru fljótir að eyða öllum peningunum sínum eða jafnvel týna þeim – aðrir komust í tæri við konur sem pössuðu að þeir rynnu ekki í aðra vasa en þeirra.

Eitt af því sem mér var sagt var að Íslendingar hefðu verið kallaðir skinfeet á þessum slóðum, skinnfætlingar – af því þeir voru alltaf svo hræðilega illa skóaðir. Þeir höfðu orð á sér fyrir að verða illa fullir – og fyrir að vera örir á fé. Voru því nokkuð vinsælir þótt væri oft vesen á þeim.

En svo komst ég líka að því að fólkið í Grimsby og Hull hugsaði sitt um Íslendinga. Ég fékk að sjá hina hliðina á landhelgisdeilunni. Það var litið á okkur næstum eins og nákomna vini eða ættingja – en um leið voru talsverð sárindi. Þetta var auðvitað ekki nema tíu árum eftir lok síðustu landhelgisdeilunnar; floti þessa bæja hafði hrunið gjörsamlega og fiskveiðarnar voru ekki nema svipur hjá sjón.

Ég man að ein konan sagði við mig þar sem við sátum að sumbli í káetu norsks skipstjóra:

Iceland killed this town!

Þeim fannst við hafa komið illa fram við þá og að sumu leyti er það rétt. Íslendingar unnu einhvers konar sigur yfir bresku ríkistjórninni, en þetta fólk var að sumu leyti á sama báti og við – íbúar sjávarbyggðar í norðurhöfum. Á endanum þurftum við Íslendingar að marka okkur landhelgi og verja hana, en bresku fiskimennirnir höfðu sótt þessi mið lengi – og margir hlotið þar vota gröf. Dagana sem ég dvaldi í bæjunum við Humberfljót fannst mér ómögulegt að líta svo á að þetta fólk hefði nokkurn tíman verið óvinir, hvað sem leið framferði ríkisstjórnar hennar hátignar.

Eftir áramótin 1968 fórust til dæmis þrír togarar frá Hull, tveir við Íslandsstrendur, Kingston Peridot við Skagagrunn með tuttugu manna áhöfn og Ross Cleveland við Ísafjörð. Þar fórust átján menn, einn skipverji, Harry Eddom, komst lífs af, hann hafði komist í björgunarbát, skolaði á land í afskekktri fjöru og gat klöngrast til bæja. Harry lifði af vegna þess að hann var vel klæddur, tveir félagar hans sem komust í bátinn króknuðu úr kulda. Eftir þetta greip um sig mikil reiði vegna aðbúnaðar á skipunum og voru eiginkonur drukknaðra skipverja áberandi í mótmælaaðgerðum.

Fræg eru síðustu orð Phil Gay, skipstjóra Ross Cleveland, sem heyrðust í talstöðinni, þau lifa í þessum gömlu sjávarbyggðum:

I am going over. We are laying over. Help me. I am going over. Give my love and the crew’s love to the wives and families.

Hér er svo frétt frá British Pathé um heimkomu Harrys Eddom árið 1968.

 

 

Það er svo eftirmáli við þetta allt ekki löngu eftir lok landhelgisdeilunnar settu Íslendingar á kvótakerfi. Það var máski nauðsynlegt til að vernda fiskistofnana. En því fylgdi líka skömmu síðar það sem telst nánast eignarhald fárra á fiskimiðunum í kringum landið, á óveiddum fiski, á helstu auðlind þjóðarinnar. Var barist til þess? Einhvern veginn er nú svo að óhjákvæmilegt er að skoða sögu landhelgisdeilnanna í ljósi þessa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Heiðrún Lind um auglýsingarnar umdeildu: „Fátt sem að við höfum gert sem ákveðnum aðilum líkar vel við”

Heiðrún Lind um auglýsingarnar umdeildu: „Fátt sem að við höfum gert sem ákveðnum aðilum líkar vel við”
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Aumkunarverð framganga stjórnarandstöðunnar – málþóf, tafaleikir og bjánataktar – samtök sægreifa með útsendara í þinghúsinu

Orðið á götunni: Aumkunarverð framganga stjórnarandstöðunnar – málþóf, tafaleikir og bjánataktar – samtök sægreifa með útsendara í þinghúsinu