fbpx
Sunnudagur 18.maí 2025
Eyjan

Hvað vilja kjósendur?

Egill Helgason
Þriðjudaginn 9. ágúst 2016 16:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skoðanakannanir geta verið ágætar til að glöggva sig á hlutum. Það er sífellt verið að mæla fylgi stjórnmálaflokka – kannski of ótt og títt. Við þurfum ef til vill ekki svo miklar upplýsingar um þetta, oft í mánuði jafnvel, en efnið er af því tagi að fjölmiðlum finnst þægilegt að matreiða það. En stjórnmálaumræða sem snýst sífellt um kannanir á fylgi verður andlaus og slöpp.

Nú, þegar eru tveir og hálfur mánuður í kosningar sem við höldum að verði haldnar, vantar nokkuð sárlega aðrar upplýsingar. Það er deilt um stjórnarskrármál og lengd kjörtímabils, þar eru í aðalhlutverki vinstri flokkarnir og Píratar – flokkarnir sem margir hafa talið að myndi stjórn eftir kosningar. Þetta er í raun stærsti ágreiningurinn sem hefur komið upp á milli þeirra og gæti reynst afdrifaríkur.

Á hinn bóginn er það Sjálfstæðisflokkurinn en þar birtist formaðurinn, Bjarni Benediktsson, í viðtali úti í blómagarði og talar um félagslegar áherslur flokks síns og ýmis velferðarmál. Flest bendir til þess að kosningaáherslur flokkanna verði nokkuð til vinstri – enginn flokkur mun setja einkavæðingu eða einkasjúkrahús á oddinn. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn verða þó í varðstöðu fyrir ríkjandi kerfi í sjávarútvegi og landbúnaði, en sú vakt er orðin býsna erfið og brestir farnir að myndast í hana.

Að því ég veit vantar alveg að þeir sem gera skoðanakannanir athugi hvar vilji kjósenda liggur. Hvað eru þeir að hugsa?  Menn hafa reyndar talið, sumpart vegna þess að þeir hafa það á tilfininningunni og sumpart líklega vegna eldri kannana (undirskriftasöfnunar Kára) – að heilbrigðismálin séu númer eitt hjá kjósendum. Reyndar var ákveðið skref stigið þar í fyrra með gríðarlegum kauphækkunum til lækna. En hvað kemur svo?

Heilbrigðismál.

Stjórnarskrá (stutt kjörtímabil).

Húsnæðismál (íbúðaskortur, hátt verð, dýr leiga).

Auðlindir (kvótinn).

Evrópusambandið (atkvæðagreiðsla sem eitt sinn var lofað).

Verðtrygging (sem snýst máski fyrst og fremst um vaxtaokur).

Stjórn (eða stjórnleysi) ferðamála.

Landbúnaður (búvörusamingurinn).

Einkavæðing (banka).

Innflytjendamál (aðalmálið hjá fjölda kjósenda í Evrópu, en svo er varla hér).

Orkumál, náttúruvernd (ekki jafn eldfimur málaflokkur og fyrir nokkrum árum.)

Velferðarmál (aðbúnaður aldraðra og fatlaðra).

Menntamál (stytting skólans, námslán).

Skattalækkanir (í Mogganum í dag fær Sjálfstæðisflokkurinn brýningu um að standa við fyrirheit um þær).

Lág laun (þar má nefna mikið innstreymi af erlendu vinnuafli, mikið af því er tímabundið en fær léleg laun).

Við þetta má sjálfsagt bæta einhverju. Hvað segja lesendur síðunnar? Hver eru aðalmálin? Það mætti svo kanna líka hver er afstaðan til kosninganna sjálfra, hversu stór hluti kjósenda vill að kosið verði í haust.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku
Lögregla rúin trausti
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Hinn gullni tími“ – Trump missir sig í Hvíta húsinu

„Hinn gullni tími“ – Trump missir sig í Hvíta húsinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“