fbpx
Miðvikudagur 21.maí 2025
Eyjan

Ólafur Ragnar – fjögur ár í viðbót?

Egill Helgason
Mánudaginn 18. apríl 2016 18:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson byrjaði í pólitík voru flestir stjórnmálamenn dagsins í dag ekki fæddir.

Ásgeir Ásgeirsson var forseti, ríkistjórnin var undir forsæti Bjarna Benediktssonar (afabróður þess sem nú er formaður Sjálfstæðisflokksins), Jónas frá Hriflu var enn á lífi og Ólafur skrafaði eitthvað við hann.

Þá var Ólafur í Framsóknarflokknum, reyndar á vinstri væng hans, hann var herstöðvaandstæðingur, síðar flæmdist hann úr flokknum undan Ólafi Jóhannessyni og sumpart Steingrími Hermannssyni, og varð með tíð og tíma formaður sósíalistaflokks. Nú telja menn að fylgi hans komi fremur af hægri væng en vinstri væng. Ólafi tókst það sem er mjög fátítt í stjornmálum, að skipta um kjósendahóp.

Þetta er löng og litrík saga, en ef Ólafur Ragnar verður kjörinn forseti í sjötta sinn, slær hann enn eitt metið í því að geta lifað áfram sem pólitíkus, átt endurkomur og endurnýjað sig. Það er enginn sem kemst með tærnar þar sem Ólafur hefur hælana í þessu efni.

Vinnur hann kosningarnar? Sennilega. Það þarf altént mikið til að sigra hann. Samstillt átak þar sem andstæðingar hans fylkja sér að baki eins öflugs frambjóðanda. Það er vandséð hver það ætti að vera. Það er líklegt að vinstra fylgi þétti sig á bak við Andra Snæ Magnason. Guðni Th. Jóhannesson hefur verið nefndur sem forsetaefni – en leggur hann í að fara gegn Ólafi? Svo hefur verið orðrómur um að Davíð Oddsson ætlaði að fara fram á síðustu metrunum, taka kosningarnar með leiftursókn, en nú virðist það útilokað.

Kjörsókn verður kannski ekki svo mikil í kosningunum sem eru haldnar 25. júní, um hásumar, meðan Evrópukeppnin í fótbolta stendur yfir. Í síðustu forsetakosningum var kjörsóknin undir 70 prósentum. Eldra fólk er líklegra til að skila sér á kjörstað en hið yngra – og er líklegra til að kjósa Ólaf Ragnar. Þegar hann var kosinn fyrst 1996 var kjörsóknin 86 prósent.

Forsetaembættið er náttúrlega á mjög skrítnum stað eftir langan valdatíma Ólafs. Það þarf að skilgreina valdsvið forseta í alvörunni – menn hafa einfaldlega látið Ólaf um það í seinni tíð. Þannig er hann sumpart orðinn eins og stjórnskipanin holdi klædd. Það þarf reglur um lengd valdasetu og um lágmarksfylgi forseta í kosningum. Það er meðal annars þessi óvissa sem veldur því að ýmsir frambjóðendurnir nú virka svo skringilegir.

Flestir sem hafa meldað sig hafa aldrei átt neinn séns – eru fyrst og fremst að æpa á athygli. Almenningur hefur farið að máta hópinn við forsetaembættið og þá heyrist viðkvæðið: „Er ekki best að karlinn sitji bara áfram?“

Þetta hefði verið óhugsandi á tíma Kristjáns Eldjárns eða Vigdísar þegar embættið var nánast eins og helgidómur. Það þótti meira að segja dónaskapur að nokkur færi í framboð gegn þeim eða svo mikið sem íhugaði það.

En loks, daginn eftir að hamborgarakallinn býður sig fram, þegar þetta er alveg að verða að skrípaleik, þegar fólk er upp til hópa farið að hrista hausinn yfir þessu öllu, stígur Ólafur fram í sviðsljósið, í beinni útsendingu í öllum fjölmiðlum, með sviðsljós fréttamannanna á sér, þjóðfélagið beinlínis stöðvast um stund og hann býðst til að taka á sig þessa byrði – hann notar gjarna orðið „skyldu“ – eitt kjörtímabil í viðbót.

Það má allavega búast við að frambjóðendum fækki eitthvað við þetta.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Orðið á götunni: Þyrnirósir vakna

Orðið á götunni: Þyrnirósir vakna
Eyjan
Í gær

Bergþór Ólason þóttist vera túristi í leigubíl í gær og þá var svindlað á honum

Bergþór Ólason þóttist vera túristi í leigubíl í gær og þá var svindlað á honum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Steingerður Þorgilsdóttir skrifar: Auður Eir tengir sál við sál – 50 ára fermingarminning

Steingerður Þorgilsdóttir skrifar: Auður Eir tengir sál við sál – 50 ára fermingarminning
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Forsætisráðherra: „Ekki á dagskrá“ að fara að vilja meirihluta þjóðarinnar

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Forsætisráðherra: „Ekki á dagskrá“ að fara að vilja meirihluta þjóðarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Verjum hafið og hemjum valdið

Steinunn Ólína skrifar: Verjum hafið og hemjum valdið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Starbucks í samstarf við Fastus

Starbucks í samstarf við Fastus