fbpx
Föstudagur 23.maí 2025
Eyjan

Bréf frá Kára – um Mossack Fonseca og frétt í DV

Egill Helgason
Mánudaginn 11. apríl 2016 13:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir fáum dögum var nefnd hér á síðunni frétt úr DV frá 2004, en það er í fyrsta sinn að hin umtalaða lögmannsstofa Mossack Fonseca kemur fyrir í íslenskum fjölmiðlum.

Vegna þesssa sendi Kári Stefánsson eftirfarandi bréf:

Egill Helgason, þú birtir í horninu þínu fésbókarfærslu Kristjáns Guy Burgess þar sem hann hreykir sér af því að hafa verið sá sem fyrstur áttaði sig á fjárhagslegu svínaríi Íslendinga á suðrænum eyjum og hafi verið rúmum áratug á undan Jóhannesi Kr. sem sé að fá af því allan heiðurinn. Það er greinilega margt óréttlætið í heimi hér. Síðan birtirðu í heild sinni grein sem Kristján skrifaði í DV árið 2004 undir fyrirsögninni: Keyptu í FBA fyrir peninga frá Panama. Greinin er full af ásökunum og dylgjum sem eru enn ásakanir og dylgjur tólf árum eftir að þær voru settar fram og engu nær því að vera staðreyndir. Það er gjarnan haft fyrir satt að gott vín batni með aldrinum, en Egill ég held að lélegar blaðagreinar geri það sjaldan. Það eru tvö atriði sem ég vil benda þér á:

1. Það voru átök um eignarhald á FBA í kringum 1999. Annar af aðilunum tveimur sem stóðu í þeim átökum kom að máli við mig og bað mig að kaupa í bankanum sem ég af bjánaskap mínum gerði og tók á þann hátt óbeinan þátt í slagnum. Peningarnir sem voru nýttir til kaupanna komu ekki frá Panama heldur voru fengnir að láni hjá FBA. Þetta voru ekki kaup af þeirri gerð þar sem einu veðin voru í hlutabréfunum sem voru keypt. Það var einnig veð í lausafé deCODE, með vitund og vilja stjórnar félagsins sem á þeim tíma var í eigu fárra aðila sem töldu þessi viðskipti þjóna sínum hagsmunum. Þessi viðskipti fóru öll fram fyrir opnum tjöldum og engin tilraun var gerð til þess að leyna eignarhaldi. Það hefði verið hægur leikur fyrir Kristján að komast að þessum sannleika árið 2004 ef hann hefði viljað, en þá hefði hann orðið að breyta titlinum yfir í: Keyptu í FBA fyrir peninga frá Íslandi. Það er ekki beinlínis sexy, eða hvað?

2. Seinna atriðið hefur með það að gera hvað orðið hafi af hluta þess fjár sem fékkst fyrir sölu helmings þess sem amerísku áhættufjárfestarnir áttu í deCODE og endaði í torkennilegu eignarhaldsfélagi. Kristján gefur það í skyn að ég hafi einhvern vegin komist yfir það fé og notað það til þess að hefja umfangsmiklar fjárfestingar á Íslandi. Í fyrsta lagi átti ég ekki krónu af því fé og ekki stal ég því. Og þótt það hvíli engin skylda á mér, hvorki lagaleg né siðferðileg, til þess að sanna sakleysi mitt þótt slyngur blaðamaður hafi ásakað mig um þjófnað þá vil ég benda á þá staðreynd að þessir sömu fjárfestar hafa haldið áfram að setja fé í ýmislegt sem ég hef gert síðan 1999, sem er ekki líklegt að þeir hefðu gert ef ég hefði stolið frá þeim. Það sem var selt voru eignir fjárfestanna, ekki deCODE, og að sölu lokinni (og í raun réttri áður en salan átti sér stað) voru örlög þess fjár sem skipti um hendur á engan máta mitt mál.

Egill það sem gerir þessa birtingu þína hvimleiða er að nú er ljóst að upplýsingar úr Panamalekanum eru að verða opinberar þannig að það er eingöngu spurning um daga eða vikur þangað til það verður ljóst hvort ég stundaði vafasöm viðskipti í gegnum skuggafyrirtæki á vegum Mossack, Fonseca & Co., sem ég gerði ekki. En kannski birtirðu þetta bara svona til vonar og vara ef ske kynni að ég hefði hreinan skjöld og ekkert væri hægt að birta eftir að skjölin verða aðgengileg. Það er nefnilega svo eindæma dapurlegt þegar enginn er skíturinn til að kasta.

 

79f79f8b89-380x230_o

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Forsætisráðherra: „Ekki á dagskrá“ að fara að vilja meirihluta þjóðarinnar

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Forsætisráðherra: „Ekki á dagskrá“ að fara að vilja meirihluta þjóðarinnar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hljóðupptökur af Joe Biden „skekja Bandaríkin“

Hljóðupptökur af Joe Biden „skekja Bandaríkin“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Efnaðasta fólkið fær mesta afsláttinn

Sigmundur Ernir skrifar: Efnaðasta fólkið fær mesta afsláttinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Verjum hafið og hemjum valdið

Steinunn Ólína skrifar: Verjum hafið og hemjum valdið