
Könnun um stöðuna í borgarstjórnarpólitíkinni sem Viðskiptablaðið birti í gær sýnir margt forvitnilegt. Ég veit að Gísli Marteinn Baldursson ætlar að rýna betur í könnunina í þætti sínum Vikunni í sjónvarpinu í kvöld.
Í megindráttum sýnir könnunin stórsókn Pírata meðan fylgi annarra flokka minnkar. Píratar fengju 27,5 prósent, Samfylkingin 24, 7 prósent en Sjálfstæðisflokkurinn er þriðji stærstur með 23,4 prósent.
Týr, sem skrifar pistla undir dulnefni í Viðskiptablaðið, notar tækifærið og gerir harða hríð að Halldóri Halldórssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins. Halldór er ekki maður stórra orða eða yfirlýsinga og hann er líka í þeirri stöðu að vera formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga á sama tíma og hann situr í borgarstjórn. Halldór veit því manna best hversu staða sveitarfélaganna er erfið.
Týr segir að staða hans sé vonlaus – það gæti semsagt stefnt í að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að finna sér enn einn leiðtoga í borginni.
Þó má geta þess að staða Framsóknar og flugvallarvina – sem hafa haldið uppi harðri stjórnarandstöðu í Reykjavík – er ennþá verri. Þar er fylgið komið niður í 4,4 prósent, hefur meira en helmingast.
En þegar könnunin er skoðuð enn betur má greina að staða ríkisstjórnarflokkanna er jafnvel enn verri en við fyrstu sýn. Meðal fólks á aldrinum 18-34 ára hefur Framsókn aðeins 1 prósents fylgi, en Sjálfstæðisflokkurinn er með 15 prósenta fylgi á aldursbilinu 18 til 24 ára en 18 prósent á bilinu 24-32 ára.
Hjá fólki sem er yfir 67 ára hefur Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar 37 prósent. Fylgi Samfylkingarinnar er hins vegar jafnara eftir aldursflokkum. Í yngsta hópnum er hún með 22 prósent en þar eru Píratar með heil 39 prósent.