
Völdum hópi úr klíku voru skammtaðir stórir fjármunir í hlutabréfaútboði Símans – það er kallað „fjárfestahópur sem settur var saman af forstjóra Símans“. Aðrir virðast hafa verið sérstakir vildarvinir Arion-banka.
Þetta var gert áður en hin almenna hlutabréfasala fór fram. Klíkunni var hleypt fremst í röðina, samkvæmt Morgunblaðinu var ávöxtunin 720 milljónir á sjö vikum. Á hlutabréfamarkaði þar sem lífeyrissjóðir stökkva á hvert fjárfestingartækifæri var þetta gulltrygt – aldrei spurning að gróðinn væri í hendi.
Það er stundum talað um að 2007 sé komið aftur, oft virkar það eins og hvimleiður og merkingarlaus frasi – en í þessu tilfelli er erfitt að verjast því að þetta sé einmitt raunin.
Klíkubræður skammta öðrum klíkubræðrum peninga. Út á þetta gengur það og ekkert annað.
Maður bíður viðbragða stjórnvalda. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur oft verið gagnrýninn á peningavaldið – hann hefur tjáð sig af minna tilefni.
Hvernig verður þetta svo þegar farið verður að selja bankana?