

Ég er að lesa nýja sjálfsævisögu Árna Bergmann, blaðamanns og rithöfundar, sem nefnist Eitt á ég samt. Við fjöllum um hana í Kiljunni innan tíðar. Bókin er full af þekkingu og mannviti eins og Árna er von og vísa. Hann rekur meðal annars fjóra þræði í lífi sínu, jafnaðarstefnu, kristindóm, þjóðernishyggju og bókmenntatrú – sterka trú á gildi bókmenntanna sem hann upplifði bæði á Íslandi og í Rússlandi þar sem hann dvaldi lengi.
Kaflinn sem ég gríp niður í úr bókinni er þessu allsendis óskyldur, en þarna er býsna skörp lýsing á samtíma okkar frá manni sem lengi starfaði við blaðamennsku og stjórnmálaskýringar. Árni segir frá leit sem reyndist árangurslítil þar sem var reynt að pússa saman lýðræði og sósíalisma. Þegar máttinn dró úr henni tók við draumurinn um „alræði markaðarins“. Grípum niður í þrjár málsgreinar úr greiningu Árna á stjórnmálunum:
Torg hinna himnesku viðskipta:
Sá draumur yfirtók pólitíska hugsun, í ríkasta hluta heims að minnsta kosti, og fór langt með að sannfæra almenning um að eiginlega væri tíma stjórnmála lokið. Þau væru óþörf og stjórnmálamenn ættu að láta sem minnst á sér kræla, nema þá helst til að semja nokkrar einfaldar umferðarreglur um Torg hinna himnesku viðskipta. Allir vita hvernig það fór: engum datt í hug að fara eftir þessum slöppu umferðarreglum, þeir ríkustu urðu geysiríkir og voldugir, drógu heil þjóðfélög á asnaeyrum með falskri velmegun um stund, svo hrundi allt. Og þar erum við.
Tæknihyggjuútópía úr vonarbanka:
Almenningur er skrýtinn: hann kann ekki að reiðast til lengdar þeim sem peningum velta um heim allan og síðan í eigin vasa, miklu heldur reiðist hann stjórnmálamönnum fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir ósköpin með framsýni og því stranga eftirliti sem fyrir skömmu var talið óþörf frelsisskerðing. Kannski komast þeir til valda eftir hrunin miklu sem áður voru í stjórnarandstöðu, en frelsi þeirra til athafna er sorglega lítið, ráðleysi þeirra mikið, ekki síst vegna þess að margir hafa gleymt því að þeirra hlutverk í tilverunni er að halda lífi í þokkalega útfærðum hugmyndum um aðra kosti en þá sem hægrið nýja hafði dembt yfir þjóðirnar. Enn tekur við vonbrigðabylgja og enn fjölgar þeim sem vilja helst enga pólitík. Í vonabanka sækja menn helst þá tæknihyggjuútópíu að eina færa leiðin á okkar tíma sé bein aðkoma allra sem á tölvur pikka að öllum ákvörðunum.
Formæla andskotans pólitíkusunum:
Og „hinn almenni maður“ eins og Guðmundur jaki komst að orði, hann kemur helst ekki auga á það hvernig hann sjálfur stendur sig í stefnumótun. Stærsti flokkur landsins er ekki til, samt nefni ég hann og kalla Kjósendaflokkinn. Stuðningsmenn hans eiga það sameiginlegt að í hverjum þeirra rúmast andstæðar skoðanir á helstu stórmálum án þess að þeir geri sér sérstaka rellu út af því. Þeir telja brýnt að lækka skatta og álögur – en um leið vilja þeir auka opinber útgjöld til hvers merkilegs málaflokks fyrir sig (nema eins eða tveggja sem hver og einn hefur persónulega andúð á). Þeir vilja að einstaklingar beri ábyrgð á sjálfum sér – en finnst líka sjálfsagt að þeir flýi með rekstur sinn og skuldahala undir pilsfald ríkisins þegar á bjátar. Þeir vilja gjarnan bæði vernda óbyggðir landsins og virkja á hálendinu. Þessi mikli flokkur, Kjósendaflokkurinn, byggir á óttanum við að kjósa sér hlut, eiga sér sannfæringu sem eitthvað má kosta í fé og fyrirhöfn. Og fyrst dæmin geta ekki gengið upp hjá fylgismönnum hans formæla þeir andskotans pólitíkusunum sem hafa ekki getað höggvið á þann hnút.