

Hún er dálítið skemmtileg könnunin sem Gísli Marteinn Baldursson birti í nýjum þætti sínum og sýnir að Jóhanna Sigurðardóttir nýtur mests álits af forsætisráðherrum Íslands á síðustu áratugum.
Stjórn Jóhönnu skíttapaði Alþingiskosningunum 2013 og fylgi flokks hennar lækkaði um heil 17 prósentustig. Það er hugsanlega mesta fylgistap flokks í stjórnmálasögu Íslands.
En þetta er smá uppreisn æru fyrir Jóhönnu – og hún hefur svosem mátt sækja ákveðna huggun í að fylgið hefur reyst hratt af eftirmönnum hennar sem töluðu sem hæst um að hún ætti að segja af sér á sínum tíma.
Jóhanna er ekki bara hæst, hún er langhæst. Það er greinilegt að þetta fer í taugarnar á sumum hægri mönnum sem hafa skrifað á samskiptamiðla að þetta sé ekkert að marka vegna þess að Jóhanna sé eini vinstri maðurinn sem spurt var um í könnuninni. En það er nú ekki alveg rétt – Steingríms Hermannssonar er fyrst og fremst minnst fyrir að leiða vinstri stjórn.
En um leið má spyrja að því hvernig staða Davíðs Oddssonar væri ef hann hefði haft vit á að hætta fyrir kosningarnar 2003? Það er ekki ólíklegt að þá hefði hann vermt toppsætið, en í staðinn er hann bara miðlungs.