

Ég las fyrir nokkrum árum bók sem nefnist Waiting for the Etonians. Þetta var stuttu áður en David Cameron tók við embætti forsætisráðherra í Bretlandi og fjallaði um furðulega hátt hlutfall karla innan Íhaldsflokksins sem hafa sótt menntun í Eton, snobbaðasta einkaskóla í heimi, eða í viðlíka stofnunum. Þessir menn voru þá á hraðri leið til valda.
David Cameron er gekk í Eton og sömuleiðis Boris Johnson, borgarstjóri í London, sem stundum hefur verið nefndur sem hugsanlegur eftirmaður hans.
Þetta hefur reyndar oft verið í umræðunni síðan, til dæmis sagði íhaldsmaðurinn Michael Gove, sem þá var menntamálaráðherra, að fjöldi Eton-drengja í innsta hring Camerons væri fáránlega hátt og nefndi að slíkt vígi forréttinda þekktist vart í öðrum löndum.
Nú er enn einn Eton-pilturinn að sækjast eftir háu embætti í Bretlandi. Þetta er auðmaðurinn Zac Goldsmith sem vill verða borgarstjóri í London. Goldsmith gekk í Eton, var reyndar rekinn þaðan stuttu áður en hann kláraði fyrir að reykja kannabis, en fór síðar í Cambridge. Hann veit ekki aura sinna tal – og er nú giftur konu úr hinni frægu fjölskyldu bankamanna, Rothschild.
Goldsmith er frambjóðandi Íhaldsflokksins, en frá Verkamannaflokknum kemur allt öðruvísi maður, þingmaðurinn Sadiq Khan sem er múslimi. Hann er einn átta systkina, sonur strætóbílstjóra sem flutti til Englands frá Pakistan og saumakonu. Hann er alinn upp í blokkarhverfi við mikil þrengsli. Hann var samgönguráðherra í tíð Gordons Brown.
Þeir gætu varla verið ólíkari, en báðir lofa þeir átaki í húsnæðismálum og báðir leggja þeir áherslu á græn málefni og takmörkun bílaumferðar. Báðir eru þeir á móti þriðju flugbrautinni á Heathrow, en hún hefur verið mikið deilumál.
Kosið er í maí og Goldsmith þykir sigurstranglegri. Hann getur haldið því fram að hann sé svo ríkur að enginn geti keypt hann. Khan er ekki eins þekktur, en á móti kemur að hann virkar býsna ekta, eins og það er orðað í Guardian. Það er ákveðin eftirspurn eftir því í stjórnmálunum.