
Það er heldur raunalegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fara inn á landsfund, sem byrjar í dag, með aðeins 21 prósents fylgi í skoðanakönnun. Öruggt er að það bætir ekki skap fundarmanna – það verður ekki auðvelt að blása þeim sóknaranda í brjóst við þessar aðstæður.
Ekki er þó ólíklegt að eitthvað verði rætt um hin einkennilegu kaup á hlutabréfum í Símanum – og máski einkavæðingu sem gæti orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þá væri ágætt að hafa í huga þennan stutta pistil eftir Ragnar Önundarson, þann sem einna fyrst varaði við íslenska bankahruninu. Ragnar birti þetta á Facebook í gær:
Nú þegar nýtt bóluástand er handan við hornið og nú þegar sala banka í eigu ríkisins er framundan, af því að það á að vera svo „óeðlilegt“ að ríkið reki banka, þá er hollt að rifja upp einkareksturinn. Var það „eðlilegra“ að fyrri kaupendur 1) fengu lán fyrir kaupverðinu, 2) sem var lágt og 3) borguðu lánin aldrei ? Var það „eðlilegra“ að afhenda mönnum sem 4) aldrei höfðu rekið banka þessa 5) innviði samfélagsins, sem eru 6) á fákeppnismarkaði og var það „eðlilegt“ að 7) stjórnvöld horfðu aðgerðalaus á 8) að fjárglæframennirnir tóku sparifé almennings til eigin nota ? Verður það „eðlilegt“ 9) að selja banka á ný án þess að hafa sett nokkrar reglur eða breytt, sem geta hindrað að sagan endurtaki sig ekki ?
En frá flokksþingi Vinstri grænna, sem er líka að hefjast, er það helst að frétta – mitt í miklu tíðindaleysi – að þess verður freistað að fella Björn Val Gíslason úr varaformannssæti. Ungur starfsmaður flokksins, Daníel Arnarson, tekur það hugsanlega að sér.
Það skiptir náttúrlega sáralitlu máli hverjir eru varaformenn stjórnmálaflokka, en hætt er við því að fréttir af þessum fundum muni mikið snúast um það.
Eitt er þó pínu athyglisvert. Katrín Jakobsdóttir er gjarnan orðuð við framboð til forseta Íslands. Mörgum þykir hún álitlegt forsetaefni, líka fólki sem er andsnúið henni í pólitík. Á Sprengisandi um síðustu helgi sagði Katrín að hún væri ekki búin að ákveða hvort hún byði sig fram til forseta.
En ef Katrín verður endurkjörin formaður VG um helgina eru varla miklar líkur á að hún bjóði sig fram til forseta – eða hvað? Þá þyrfti hún að yfirgefa flokk sinn innan tíðar – og þá væri formaður, að minnsta kosti tímabundið, Björn Valur, Daníel eða einhver annar…