

Ég er mjög ánægður með viðtalið við Jón Gnarr sem birtist í Kiljunni í gærkvöldi. Þar ræddi Jón nýjustu bók sína, Útlagann, hann var einlægur, hreinskilinn og sagði margt viturlegt.
Þáttinn má sjá í heild sinni hérna á vef Rúv, en svo er líka hægt að sjá lengri útgáfu af viðtalinu – semsagt óklippta, þar er talsvert um humm og ha, en það er dýpra og ítarlegra.
Mér hafa komið frekar á óvart deilur sem hafa spunnist um bók Jóns vegna lýsinga hans á dvöl í héraðsskólanum að Núpi í Dýrafirði. Þetta eru vissulega nöturlegir kaflar, í viðtalinu líkir Jón lífinu þar við Lord of the Flies, bók Williams Golding. En þetta er afar persónuleg frásögn Jóns, ekki skýrsla um skólalífið.
Þetta var lokaður heimur, þarna komu krakkar úr héraði en líka „vandræðaunglingar“ frá Reykjavík og Akureyri, svona var það á síðustu árum héraðsskólanna. Eins og Jón lýsir því voru mörg þessara aðkomubarna afskipt, þau höfðu verið send burt í einhvers konar einangrunarvist – höfðu sáralítið samband við foreldra og fjölskyldu. Það átti sennilega að innræta börnunum einhvers konar gildi, íslensk gildi, segir Jón. Honum verður tíðrætt um hörkuna sem þá var í íslensku samfélagi og eimir enn eftir af henni.
Kennararnir komu og fóru, höfðu sumir litla getu til að kenna. Jón segir að í þessu umhverfi hafi þrifist mikil vanlíðan, hann segir frá ofbeldi og nefnir líka dæmi um kynferðisofbeldi – þetta er ekki síst ofbeldi milli nemenda. Sjálfur segist Jón hafa lifað af vegna þess að hann þótti skrítinn og skemmtilegur. Og hann hefur drukkið í sig heimspeki pönkhljómsveitarinnar Crass sem satt að segja boðaði bara nokkuð góð lífsgildi.
Þetta er bara einn þráðurinn í þessari afar markverðu bók. Ég velti fyrir mér hvort hún er ekki alveg tilvalin til lestrar fyrir unglinga – þótt margt í henni sé grimmt og ljótt. Þarna er lýst dreng sem er utanveltu í tilverunni, nær ekki sambandi við foreldra sína, gengur illa í skóla, og er haldinn einhvers konar ofurnæmi. Að vissu leyti er hann ofviti – minnir á Þórberg Þórðarson.
Þegar í bæinn kemur eftir Núpsdvölina lendir Jón í alls kyns basli. Honum reynist ómögulegt að tolla í vinnu, störfin eru líka heldur léleg og sum beinlínis fáránleg. Hann notar eiturlyf – verður fíkinn í læknadóp. Gengur í gegnum hræðilega skurðaðgerð. En í þessu öllu sér maður glitta í manninn sem Jón varð síðar, grínistann og svo borgarstjórann sem kom fram eftir hrunið og var svo mikilvægur fyrir íslenska stjórnmálamenningu. Við það er eitthvað ævintýralegt – hvernig þessi ringlaði unglingur bjargast úr háskanum. Hann er útlagi en kemst á endanum til byggða.