
Það eru litlar líkur á að túristabólan íslenska springi eða hjaðni. Ísland liggur allt í einu um þjóðbraut þvera. Eitt sinn lentu hér örfáar flugvélar á dag – nú eru flug sem hingað koma talin í tugum. Þar á meðal eru flugfélög eins og Easy Jet, Lufthansa, Delta og British Airways. Og svo hin stóraukni farþegafjöldi hjá Icelandair og Wow.
Hingað koma stjörnur eins og Justin Bieber og básúna á samskiptamiðlum hvað landið sé stórkostlegt. Ég tek mið af erlendum vinum mínum sem fyrir fáum árum hefði ekki dottið í hug að koma hingað – nú segjast þeir allir vera á leiðinni, þeir sem eru ekki búnir að koma.
Ég tók lítið próf á netinu í gær þar sem var spurt til hverra af 250 af helstu áfangastöðum veraldar ég hefði komið. Þar á meðal voru fjórir staðir á Íslandi: Gullfoss, Geysir, Þingvellir og Blá Lónið. Það er býsna hátt hlutfall. Allt vinnur þetta saman til að gera Ísland að miklu ferðamannalandi til framtíðar.
Á næsta ári segja þeir að tala ferðamanna verði 1,5 miljón og svo 2 milljónir eftir fáein ár.
En við erum alls ekki búin undir að taka við slíkum fjölda. Það þarf að gera verulegt átak í að bæta innviðina og efla menntun tengda ferðamennsku. Öll umræða um ferðaþjónustuna er hippsum happs og það skortir algjörlega frumvkæði og sýn frá stjórnvöldum. Aðgerðaleysi þeirra í málefnum ferðaþjónustunnar er eiginlega ráðgáta. Hverju er um að kenna, sofandahætti, áhugaleysi – eða því að þeir sem standa að ríkisstjórninni eru hallir undir aðrar atvinnugreinar?
Ef ekki verður gerð gangskör að því að byggja betur upp innviðina, þá fer að verða spurning hvort við þurfum að beita aðgangskvótum – segja einfaldlega að það sé uppselt á Íslandi?