

Fyrir nokkru var ég staddur í New York. Ég gekk að kvöldlagi inn í búð. Í búðinni fengust meðal annars kleinuhringir. Þar voru meðal viðskiptavina tveir lögregluþjónar úr hinu fræga lögregluliði borgarinnar, NYPD. Þeir voru að kaupa sér box með niðurskornum ávöxtum.
Ég spurði hverju sætti – hví þeir keyptu ekki kleinuhringi eins og bandarískir lögreglumenn almennt?
En nei, sögðu þeir, það er alveg búið. Lögreglan borðar ekki kleinuhringi lengur. Svo héldu þeir út í nóttina með ávextina sína.
Þetta má hins vegar sjá á Facebook-síðu Dunkin’ Donuts. Íslenska lögreglan hópast í kleinuhringina. Kæmi ekki á óvart þótt myndin ætti eftir að fara víða. Á sama tíma berast þó fréttir um að DD eigi í vandræðum í Bandaríkjunum, þurfi að loka hundrað stöðum og að hlutabréfin hafi fallið um 12 prósent.