

Hallgrímur Helgason kemur til mín í Kiljuna í kvöld með nýja bók sem nefnist Sjóveikur í München, kemur út jafnóðum á íslensku og þýsku.
Bókin fjallar um þegar Hallgrímur, að loknu stúdentsprófi, fer til Þýskalands og ætlar að nema myndlist. Nema hann er einrænn og á erfitt með að tengjast fólki og er ekki hrifinn af samtímanum. Hann lendir í alls konar raunum og er ekki sérlega hamingjusamur. Kannski hentaði München Hallgrími heldur ekki sérlega vel. Þetta er falleg borg í fallegu umhverfi, en hún er líka dálítið sveitaleg og menningin þar gróf og óhefluð eins og brýst fram á Oktoberfest og Fasching.
Þetta er sjálfsævisaga en þó með nokkrum ýkjum. Maður veit ekki alltaf hvað er satt og rétt – en það skiptir kannski ekki öllu máli. Sjálfur kannast ég reyndar við margt fólk í bókinni – þarna eru gamlir vinir mínir sem voru samtíða Hallgrími í München, hrokafullir MR-ingar sem eru með alls kyns derring og Hallgrími honum fannst greinilega ekki þægilegt að umgangast.