
Það er fagnaðarefni að salan á hlutabréfum í Símanum skuli nú koma til kasta Alþingis – og í raun furðulegt að þingmenn skyldu ekki kveikja á þessu fyrr. Hvar eru Framsóknarmennirnir sem var svo heitt í hamsi vegna nýbygginga Landsbankans?
Skýringarnar sem koma á sölu á þessum hlutabréfum til valdra klíkubræðra eru allsendis ófullnægjandi og engin furða þótt menn velti fyrir sér hvort ruglið sem tíðkaðist fyrir hrun sé að byrja aftur.
Erlendir fjárfestar sem áttu að gefa þessu einhvern virðuleikablæ virðast vera ansi mikið tengdir Íslandi. Hópur manna sem fékk að kaupa var sérvalinn af forstjóra Símans. Og svo er spurning hvernig Arionbanki valdi sína vildarvini, þá viðskiptavini bankans sem fengu að komast í dílinn?
Hvað er skömmtun í þessu og hvað er sjálftaka?
Innan stjórnarflokkanna er mikil óánægja vegna þessa gjörnings – og nú ríður Guðlaugur Þór Þórðarson á vaðið og spyr hverju sætir?
Þetta vekur líka illan grun um að hlutabréfamarkaður á Íslandi sé algjör brandari – hugsanlega jafnmikill brandari og hann var fyrir hrun (prófið að segja erlendu fólki söguna af íslenska hlutabréfamarkaðnum frá 2000-2008!)