
Það er ábyggilega nokkuð til í því hjá Gunnari Smára Egilssyni að oftrú á þjóðaratkvæðagreiðslur sé varasöm og að slíkar kosningar geti klofið þjóðir og skapað deilur, úlfúð og andstyggilegheit.
En stjórnmálin eru reyndar full af slíku nú þegar – þótt þjóðaratkvæðagreiðslurnar séu sárafáar, í raun ekki nema þrjár á tíma íslenska lýðveldisins, þegar greidd voru atkvæði um stofnun þess 1944 og svo tvær Icesave-atkvæðagreiðslur á þessum áratug.
Við getum gert okkur í hugarlund að slíkt kerfi hefði verið miklu virkara, þjóðaratkvæðagreiðslur hefðu verið haldnar um stór og þung deilumál:
Inngönguna í Nató – hún hefði líklega verið felld?
Kvótakerfið – því hefði sennilega verið kollvarpað?
Aðildarumsókn að Evrópusambandinu – hefði verið tvísýnt?
Í einhverjum tilvikum myndu þjóðaratkvæðagreiðslur virka eins og uppreisn almúgans gegn ráðandi öflum – það virðist til dæmis ekki nokkur leið að hnika kvótakerfinu með þingræðislegum aðferðum. Þarna væri semsagt komin ákveðin svipa á stjórnmálin að fylgja þjóðarvilja fremur en hagsmunahópum.
Ein eindregnasta krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu um þessar mundir er hvort eigi að kjósa um framhald á aðildarviðræðum við ESB. Píratar hafa beinlínis lýst því yfir að slík kosning verði haldin ef þeir komast til valda.
En það er náttúrlega líka hægt að hugsa sér að komi upp kröfur um að kosið verði um enn viðkvæmari mál, eins og til dæmis þau sem tengjast innflytjendum og flóttamönnum. Verður hægt að hamla gegn slíku í þjóðaratkvæðagreiðslulýðræði Píratanna?
(Svo má nefna í leiðinni að „þjóðaratkvæðagreiðsla“ er skelfilega óþjált orð.)