
Það vakti nokkra undrun þegar greint var frá hinni nýju Stjórnstöð ferðamála að líka var tikynnt að ráðinn hefði verið forstjóri fyrir hana – án þess að staðan hafi verið auglýst. Það vakti svo ekki minni undrun þegar kom í ljós að nýi forstjórinn hefur enga reynslu af ferðaþjónustu.
Jú, hann er vissulega forstjóratýpa, sagður vera þungavigtarmaður, hefur unnið hjá Actavis – en er það nóg? Eiginlega finnst manni það furðuleg hugmynd að ráða í slíkt starf mann sem þekkir ekki til fagsins – sem er bæði flókið og víðfemt – hefur unnið við að selja samheitalyf, og fá svo að heyra að reynsluleysið er jafnvel talið honum til tekna.
Stundin greinir frá því í dag nýi forstjórinn, Hörður Þórhallsson, sé fulltrúi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn verður síðar í mánuðinum og birtir mynd af honum með flokksbroddum. Getur verið að menn séu ennþá í því gamla og vonda fari að láta pólitísk tengsl hafa áhrif á ráðningar af þessu tagi? Og ef hann er slíkur þungavigtarmaður, hefði þá ekki verið meira traustvekjandi fyrir hann og aðra ef starfið hefði verið auglýst?
Það vekur líka athygli að ráðgjafavinnan fyrir stofnun Stjórnstöðvar ferðamála er unnin af fyrirtæki sem er í eigu Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Komið hefur fram að Guðfinna hefur þegið stórar fjárhæðir fyrir þetta verkefni.
Þetta virkar eins og frekar óburðug byrjun. Maður hefði satt að segja haldið að tími klíkuráðninga ætti að vera liðinn á Íslandi.