

Sicario er ein magnaðasta kvikmynd sem ég hef séð lengi. Hún gerist í víglínu stríðsins gegn fíkniefnum við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó – atburðirnir hverfast um borgina Juarez sem var nánast stríðssvæði til skamms tíma. Morðtíðnin hefur reyndar lækkað þar síðustu árin, en 2010 voru átta til níu morð þar á dag.
Rithöfundurinn Roberto Bolano skrifaði raunar líka bók sem gerist að hluta til í Juarez, það er stórvirkið 2666. Þar segir frá óhugnanlegum ránum og morðum á ungum konum (feminicide) í bæ sem Bolano nefnir Santa Teresa, en er augljóslega byggður á Juarez.
Í Sicario er fjallað um leynilega innrás bandarískra löggæslumanna yfir landamærinn, inn í heim fíkniefnabaróna. Sú reynist byggð á mjög hæpnum forsendum, þarna eru fulltrúar frá CIA og málaliðar komnir úr stríðinu í Afganistan, þegar yfir lýkur er ekki alveg gott að sjá hverjir eru vondu eða góðu gæjarnir.
En það er stíllinn á myndinni sem gerir hana svo góða, nákvæmnin og þéttleikinn í frásögninni og dulin spenna og þá aðallega í kringum persónuna sem hinn frábæri leikari Benicio del Toro leikur. Í raun sést ekkert í myndinni sem getur talist fagurt, nema einstöku sinnu þegar glittir í skýjafar á himni. Eyðimörkin er ógnandi, girðingarnar á landamærunum eru hræðilega mannfjandsamlegar og öll hús eru ljótir steinsteypuklumpar.
Í hléi á Sicario velti ég fyrir mér hver hefði samið hina mögnuðu tónlist. Með gúgli kom í ljós að það er Íslendingurinn Jóhann Jóhannsson. Ekki ólíklegt að hann verði tilnefndur til Óskarsverðlauna annað árið í röð fyrir þetta verk. Annað væri eiginlega fráleitt.