Það er merkilegt þegar lífið er orðið svo mikið pólitískt valdageim að mann langar ekkert lengur að sjá hvað er satt og hvað er rétt.
Þegar það er í raun hætt að skipta máli – er merkingarlaust. Allt er í raun spuni – settur fram til að ná einhverju fram.
Svona er um þann málflutning að staða Sjálfstæðisflokksins hafi styrkst vegna málsvarnar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Það er merkileg spunamennska.
Hanna Birna á ennþá í vandræðum, en það sem er að gerast er að fólk finnur fyrir efnahagsbata – hversu tímabundinn sem hann kann að vera. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þessa – nú geta menn kannski aftur farið að græða á daginn og grilla á kvöldin.
Bjarni Benediktsson virkar líka sem nokkuð traustur leiðtogi, öfgalaus og hófstilltur. Staða hans er þannig að honum er þakkað fyrir það sem gengur vel.
Margir urðu mótmæltu bloggfærslu þar sem ég lagði aðeins út af könnunum sem sýna nokkra sókn Sjálfstæðisflokksins. Menn fussuðu og sveiuðu og sögð að skýringin væri bara léleg þátttaka í könnununum. En það er ekki svo – það er greinileg sveifla til Sjálfstæðisflokksins og ekki ólíklegt að hún haldi áfram. En mest af því fylgi er auðvitað að koma frá Framsókn, frá fólki sem sveiflaðist yfir til Framsóknar í síðustu kosningum.